Aðstoðarforstjórinn sagði af sér

Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims.
Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims. AFP

Aðstoðarforstjóri bresku mannúðarsamtakanna Oxfam hefur sagt af sér í kjölfar ásakana um að starfsfólk samtakanna á Haítí hafi keypt vændi. Ásakanir um sams konar hegðun hafa komið fram á starfsemi samtakanna í Chad. „Sem yfirmaður verkefna á þessum tíma skammast ég mín fyrir að þetta hafi gerst á minni vakt og ég tek fulla ábyrgð á því,“ sagði  Penny Lawrence í yfirlýsingu.

Oxfam hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að upplýsa ekki og rannsaka ásakanir um að starfsmenn samtakanna hefðu keypt vændi á Haítí er þeir voru þar að störfum í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta árið 2010. Samtökin neita enn að hafa reynt að hylma yfir málið.

Stjórnarformaður Oxfam, Caroline Thomson, og aðalframkvæmdastjóri samtakanna, Mark Goldring, voru kölluð til fundar hjá þróunarmálaráðherranum Penny Mordaunt í dag. Ráðherrann hefur hótað því að stöðva fjárstuðning breskra stjórnvalda við samtökin nema að þau taki „siðferðislega forystu“, eins og það var orðað.

Framkvæmdastjóri Oxfam, Mark Goldring, og stjórnarformaðurinn koma af fundi hjá …
Framkvæmdastjóri Oxfam, Mark Goldring, og stjórnarformaðurinn koma af fundi hjá þróunarmálaráðherra Bretlands í dag. AFP

Oxfam eru risastór samtök og fengu á síðasta ári 31,7 milljónir punda, 4,5 milljarða króna, í styrki frá breska ríkinu.

Ásakanirnar beinast fyrst og fremst gegn Roland van Hauwermeiren sem var landsstjóri Oxfam á Haítí. Hann hafði áður stýrt verkefnum samtakanna í Afríkuríkinu Chad. 

Oxfam rannsakaði ásakanirnar árið 2011 og sagði van Hauwermeiren sem og tveir aðrir upp störfum í framhaldinu. Fjórum starfsmönnum Oxfam var sagt upp. 

„Á síðustu dögum höfum við fengið upplýsingar um að áhyggjur hafi vaknað vegna hegðunar starfsfólks í Chad sem og á Haítí sem við brugðumst ekki nægilega við. Nú er ljóst að þessar ásakanir – sem snúast um kaup á vændi landsstjórans og starfsmanna hans í Chad – komu upp áður en hann flutti sig yfir til Haítí,“ sagði í yfirlýsingu Lawrence í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert