Sáu eld í vélinni er hún hrapaði

Slökkvilið og björgunarsveitarmenn á slysstað í nágrenni Argunovo. Allir 71 …
Slökkvilið og björgunarsveitarmenn á slysstað í nágrenni Argunovo. Allir 71 sem voru um borð létust er vélin hrapaði. AFP

Rússneskir rannsakendur flugslysa leita nú á snæviþöktum ökrum í nágrenni bæjarins Argunovo að vísbendingum um ástæður þess að farþegavél hrapaði þar nokkrum mínútum eftir flugtak frá Domodedovo-flugvellinum í Moskvu í gær.

Staðfest hefur verið að þeir 71 farþegi og áhöfn sem voru um borð hafi farist.

BBC segir rannsakendur vera að skoða hvort veðuraðstæður, mannleg mistök eða bilun hafi valdið flugslysinu. Hryðjuverk hefur hins vegar ekki verið nefnt sem möguleg ástæða slyssins, en vélin var á leið til borgarinnar Orsk í Úralfjöllum.

Sjónarvottar hafa greint rússneskum fjölmiðlum frá því að eldur hafi verið í vélinni þegar hún hrapaði.

Maður sýnir hér hluta úr braki vélarinnar, en það liggur …
Maður sýnir hér hluta úr braki vélarinnar, en það liggur víða og þurfa rannsakendur að fínkemba stórt svæði í leit að vísbendingum um ástæður slyssins. AFP

Flugvélin sem var frá Saratov-flugfélaginu var af gerðinni Antonov An-148. Hún hrapaði um 80 km suðaustur af Moskvu og er brak vélarinnar dreift yfir stórt svæði. Ekkert neyðarkall barst frá vélinni áður en slysið átti sér stað.

Talsmaður rússnesku flugslysanefndarinnar, Svetlana Petrenko, segir leitina taka að minnsta kosti allan daginn í dag að því er fréttavefurinn gazeta.ru greinir frá. Búið er þó að finna annan flugrita vélarinnar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur vottað fjölskyldum fórnarlambanna samúð sína, en búið er að birta farþegalistann og voru allir nema þrír sem um borð voru frá Orenburg-héraðinu þar sem borgin Orsk er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert