Fékk 15 ár fyrir ránið á skólastúlkunum

Myndband sem Boko Haram sendi frá sér í janúar á …
Myndband sem Boko Haram sendi frá sér í janúar á þessu ári sýnir a.m.k. 14 þeirra stúlkna sem samtökin rændu frá Chibok árið 2014. Einn liðsmaður samtakanna hefur nú hlotið 15 ára dóm fyrir sinn þátt í ráninu. AFP

Dómstóll í Nígeríu dæmdi í dag einn liðsmanna Boko Haram til fangelsisvistar fyrir þátttöku sína í ráninu á 214 stúlkum frá Chibok.

Maðurinn, Haruna Yahaya, er sá fyrsti sem sem hlýtur dóm fyrir þátttöku sína í þessu fjölmenna mannráni. Yahaya sem er fyrrverandi kaupmaður viðurkenndi þátt sinn í ráninu á 276 skólastúlkum, en sagðist hafa verið neyddur til að taka þátt.

Dómarar við herdómstólinn í Kanji, sem nú dæma í máli rúmlega 1.000 liðsmanna Boko Haram, höfnuð afsökunarbeiðni Yahaya. Beiðni hans um miskunn vegna fötlunar sinnar, en hann er lamaður á annari hendi og með afmyndaðan fót, var heldur ekki tekin til greina að því er BBC greinir frá.

Salihu Isah, talsmaður dómsmálaráðuneytisins, staðfesti í samtali við AFP-fréttastofuna að Yahaya hefði fengið 15 ára fangelsisdóm.  

Yahaya, er frá Potiskum fylki í norðausturhluta Nígeríu. Hann var handsamaður af hópi uppreisnarmanna Civilian JTF árið 2015, ári eftir að skólastúlkunum var rænt.  Af þeim 276 sem voru teknar í apríl 2014 eru 112 enn í haldi.

Um 700 meintir uppreisnarmenn fara fyrir dómstólinn í þessari viku.  Á mánudag voru 20 þeirra dæmdir sekir um glæpi tengdum Boko Haram, en tveir voru látnir lausir vegna skorts á sönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert