Hinrik Danaprins er látinn. Prinsinn, sem var 83 ára, lést í gærkvöldi í konungshöllinni í Fredensborg og voru Margrét Þórhildur Danadrottning og prinsarnir tveir, Friðrik og Jóakim, við hlið hans er hann lést. Danska ríkisútvarpið greinir frá því að flaggað verði í hálfa stöng við allar byggingar danskra ríkisstofnana til 20. febrúar.
Greint var frá því í gær að Hinrik hefði verið fluttur af Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og til Fredensborg-hallar, þar sem hinsta ósk hans væri að fá að verja síðustu stundum sínum í höllinni.
Hinrik greindist með góðkynja æxli í lunga eftir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús í lok síðasta mánaðar og lét danska hirðin vita af því á föstudag að ástand prinsins væri alvarlegt. Hann greindist einnig með heilabilun á síðasta ári.
Danadrottning frestaði í kjölfarið öllum viðburðum sem hún átti að vera viðstödd og Friðrik krónprins hætti við að vera viðstaddur Vetrarólympíuleikana í Suður-Kóreu.