Hinn nítján ára gamli Nikolas Cruz, sem skaut að minnsta kosti sautján til bana í framhaldsskólanum Marjory Stoneman Douglas í Flórída í gær, hafði verið rekinn frá skólanum. Á meðan árás hans stóð yfir földu nemendur sig þar til lögreglan kom og gerði leit að manninum í skólanum. Þeir héldu að þetta yrði sín síðasta stund og sendu ástvinum sínum skilaboð. Aðrir tóku upp það sem fyrir augu bar og hafa nokkur slík myndskeið verið birt í fjölmiðlum. Fórnarlömbin eru bæði fullorðnir og börn.
Cruz lét skotin úr AR-15 rifflinum sem hann notaði við voðaverkin dynja á þeim sem urðu á vegi hans. Hann skaut þrjá til bana fyrir utan skólahúsið og fór svo inn og skaut þar tólf til bana. Tveir til viðbótar létust svo á sjúkrahúsi, að því er segir í frétt BBC. Fleiri særðust í árásinni og liggja á sjúkrahúsi.
Einn kennari segist hafa verið á leið út úr skólabyggingunni er viðvörunarkerfi skólans hafi farið í gang. Hann hafi mætt öðrum kennara sem sagði að árásarmaður væri innandyra. Kennarinn fór engu að síður aftur inn í skólann og inn í kennslustofuna þar sem hann faldi sig ásamt nítján nemendum sínum í skáp í um fjörutíu mínútur, að því er fram kemur í frétt CNN.
Ekki hefur verið upplýst hvort Cruz, sem var handtekinn á vettvangi í gær, hafi sagt hvert tilefni árásarinnar var. Hann hafði verið rekinn úr skólanum fyrir agabrot en ekki hefur verið greint frá því hvert það var. Í frétt AFP-fréttastofunnar er haft eftir kennara að hann hafi verið ógn við aðra nemendur skólans. „Okkur var sagt í fyrra að hann mætti ekki koma í skólann með bakpoka á sér,“ segir stærðfræðikennarinn Jim Gard. „Það voru vandamál tengd honum í fyrra er hann hótaði nemendum. Ég tel að það hafi verið ástæðan fyrir því að hann var rekinn.“
Samnemendur hans segja að hann hafi lent í vandræðum og hafa sumir sagt í fjölmiðlum að í raun komi þeim ekki á óvart að heyra að það hafi verið hann sem skaut.
Þegar skothríð hófst í einni byggingu skólans héldu margir í fyrstu að um hvelhettur væri að ræða.
Nicole Baltzer lýsir því í samtali við CNN að hún hafi verið í stærðfræðitíma í lok skóladags er viðvörunarkerfið fór í gang. Nemendur þustu þá fram á gang og ætluðu að yfirgefa skólabygginguna. Þá hafi hún heyrt að minnsta kosti sex skothvelli og allir hafi hlaupið aftur inn í bygginguna.
„Ég heyrði marga skothvelli, að minnsta kosti sex. Þeir voru mjög nálægt okkur,“ segir hún. Er árásin var yfirstaðin og búið var að handtaka Cruz segir hún lögreglumann hafa fylgt sér út úr skólanum. Hann hafi sagt henni að loka augunum er hún gekk fram hjá einni skólastofunni þar sem „ekkert fallegt“ væri að sjá þar inni.
Skotárásin er ein sú mannskæðasta í skóla í Bandaríkjunum frá því að árás var gerð í Connecticut árið 2012. Þá létust 26.
Lögreglan segir að meðal þess sem rannsakað verður er „rafrænt fótspor“ Cruz. Farið verður í gegnum alla netnotkun hans. Það sem hún hefur séð hingað til við þá vinnu er „mjög, mjög truflandi,“ sagði Scott Israel, lögreglustjóri í Broward-sýslu á blaðamannafundi.
„Þetta er hræðilegur dagur í Parkland,“ sagði Israel en í bænum búa aðeins um 30 þúsund manns. Parkland er í um 80 kílómetra fjarlægð frá Miami.