Skrímslið tjáði sig loksins

Joachim de Araujo og Jennifer de Araujo, foreldrar hinnar níu …
Joachim de Araujo og Jennifer de Araujo, foreldrar hinnar níu ára gömlu Maelys de Ar­aujo sem var myrt. AFP

Jennifer de Araujo, móðir hinnar níu ára gömlu Maelys de Araujo, sem var myrt og líkamsleifar hennar fundust í vikunni, sagðist í færslu á Facebook vera full sektarkenndar yfir því að hafa ekki getað varið dóttur sína fyrir morðingjanum.

„Við þurfum að bíða í fimm og hálfan mánuð og þá ákvað skrímslið loksins að segja eitthvað,“ sagði Jennifer de Araujo þegar líkamsleifar dóttur hennar fundust.

„Við sjáum hana aldrei aftur og það er þér að kenna,“ skrifaði Jennifer.

Vinnufélagar Jennifer hafa ákveðið að gefa henni hluta af fríi sem þeir eiga inni í vinnunni. Hún fær því tæplega þriggja ára frí.

Jennifer de Araujo er hjúkrunarkona í bænum Pontarlier en hún hefur ekki unnið síðan dóttir hennar hvarf úr brúðkaupi í bæn­um Pont-de-Beau­vois­in, aðfar­arnótt 27. ág­úst síðastliðinn.

Hinn 34 ára gamli Nor­dahl Lelanda­is játaði að hafa myrt stúlk­una eftir að lögregla fann leifar úr blóði af Maelys á bílnum hans. Lelandais sagðist hafa myrt Maelys óvart, án þess að það væri skýrt nánar.

Stéttarfélag á spítalanum skipulagði það þannig að vinnufélagar móðurinnar gætu gefið hluta af sínu fríi til hennar. Talsmaður stéttarfélagsins, Lydie Lefebvre, greindi frá því í dag að Jennifer de Araujo hefði samtals fengið 572 vinnudaga frí.

„Samheldnin kom okkur ekki á óvart, þetta hafði mikil áhrif á okkur öll,“ sagði Lefebvre.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert