Bresku Oxfam góðgerðarsamtökin greindu í dag frá því að verið væri að rannsaka 26 tilfelli til viðbótar þar sem grunur leikur á kynferðislegri misnotkun. Eru 16 þessara tilfella sögð tengjast alþjóðastarfi samtakanna.
Samtökin hafa verið gagnrýnd harðlega undanfarið fyrir að líta framhjá tilkynningum um misnotkun starfsmanna sinna, m.a. þeirra sem tóku þátt í hjálparstarfi á Haítí eftir jarðskjálftana 2011.
„Við viljum endilega að fólk gefi sig fram,“ sagði Mark Goldring, framkvæmdastjóri Oxfam, er hann sat fyrir svörum hjá breskri þingnefnd um þróunarmál í morgun. Sagðist hann biðjast „innilega“ afsökunar á því hvernig samtökin hefðu tekið á málinu, sem og orðum sem hann lét falla í viðtali við í Guardian í síðustu viku. „Ákafi og reiði árásanna fær mann til að velta fyrir sér hvað við gerðum? Myrtum við börn í vöggu sinni?“ hafði blaðið eftir Goldring. Segir hann þessi orð nú hafa verið sögð er hann var undir miklu álagi.
Caroline Thomson, yfirmaður samtaka góðgerðafélaga, mun einnig sitja fyrir svörum hjá nefndinni að því er BBC greinir frá.
Tæplega 10.000 manns starfa fyrir Oxfam í rúmlega 90 löndum og hafa samtökin neitað því að reynt hafi verið að fela slíkar ásakanir, en nefnd sem fer með málefni góðgerðarsamtaka er nú með málið til rannsóknar hjá sér.
Goldring, sem hefur starfað hjá Oxfam frá 2013, segir 26 frásagnir af brotum frá ýmsum tímum hafa borist samtökunum og að 16 þeirra hafi verið framin utan Bretlands.
„Mér þykir leitt og okkur þykir leitt sá skaði sem Oxfam hefur valdið, bæði íbúum Haítí og líka sá skaði sem það kann að hafa valdið hjálpar- og þróunarstarfi með því að draga úr stuðningi almennings,“ sagði Goldring.