Vill að Noregur banni umskurð drengja

Anne Lindboe, umboðsmaður barna í Noregi segir nokkrar ástæður fyrir …
Anne Lindboe, umboðsmaður barna í Noregi segir nokkrar ástæður fyrir því að hún styðji frumvarpið. Ljósmynd/Umboðsmaður barna í Noregi

Umboðsmaður barna í Noregi vonast til þess að Noregur fylgi í fótspor Íslendinga og leggi fram frumvarp sem banni umskurð ungra drengja. Norska ríkisútvarpið NRK segir umboðsmanninn, Anne Lindboe, styðja frumvarpið.

Segist Lindboe styðja frumvarpið af nokkrum ástæðum. Norskt heilbrigðisstarfsfólk hafi tekið allan vafa af um að umskurður ungra drengja sé sársaukafull aðgerð sem þjóni engum læknisfræðilegum tilgangi, auk þess sem ákveðin hætta sé alltaf fyrir hendi á aukaverkunum. „Síðan erum við með barnasáttmála sem kveður á um að barnið hafi val og að á það sé hlustað,“ segir Lindboe.

Frumvarp íslenskra þingmanna um bann við umskurði ungra drengja hefur vakið töluverða athygli utan landsteinanna og hefur því m.a. verið mótmælt af forsvarsmönnum ýmissa trúarhreyfinga.

Lindboe er bjartsýn á að bann við umskurði drengja öðlist einhvern tímann gildi í Noregi, en segir það geti tekið sinn tíma. „Það er alltaf kostur þegar annað land tekur tekur forystuna, þannig að ég styð Ísland í þessu máli.“

Ósanngjörn umræða

„Frá mínum sjónarhóli er þetta er ósanngjörn umræða. Afleiðingar af þessu inngripi eru  ekki jafn miklar og margir vilja meina,“ segir Rolf Kirschner, læknir á norska Landspítalanum og fyrrverandi leiðtogi gyðinga í Noregi, í samtali við NRK. Umskurður drengja eigi sér nokkurra þúsund ára sögu og hann telji málið ekki þess eðlis að við því eigi að liggja allt að sex ára fangelsisdómur, líkt og íslenska frumvarpið kveður á um.

Kirschner hefur iðulega rætt málið við Lindboe, sem m.a. hefur lagt til að aldurstakmark verði sett á umskurð og ekki verði heimilt að umskera drengi fyrr en þeir eru orðnir 15-16 ára gamlir og færir um að taka ákvörðun um málið sjálfir.

Kirschner segist virða þá hugmynd hennar, en sem skurðlæknir þá viti hann hins vegar að umskurður á 16 ára dreng eða fullorðnum einstaklingi sé mun meira inngrip en á ungabarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert