Fjórir einstaklingar hafa látið lífið við að reyna að finna fjársjóð sem auðmaðurinn Forrest Fenn segist hafa falið í Klettafjöllum í Bandaríkjunum árið 2010. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.
Bandaríkjamaður á sextugsaldri, Jeff Murphy, var sá fjórði til þess að láta lífið þegar hann féll úr 152 metra hæð við leit að fjársjóðnum innan marka Yellowstone-þjóðgarðsins. Murphy lést í júní á síðasta ári en ekki var greint frá því fyrr en nú í vikunni.
Fenn hefur sagt að tilgangurinn með því að fela fjársjóðinn hafi verið að fá fólk til þess að standa upp úr sófanum og njóta náttúrunnar. Að hans sögn er um að ræða bronskistu sem inniheldur 265 gullpeninga, demanta og fleiri gersemar.
Fenn sendi frá sér 24 línu ljóð sem hann segir innihalda vísbendingar um staðsetningu kistunnar. Talið er að tugir þúsunda hafi leitað að fjársjóðnum undanfarin átta ár. Leitað hefur aðallega verið í ríkinu Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum.
Murphy, sem var varaformaður International Housewares Association, var hins vegar við leit á mörkum ríkjanna Wyoming og Montana. Víðtæk leit hófst eftir að ekkert hafði spurst til hans þar sem notast var meðal annars við þyrlu og leitarhunda.
Ekkja hans, Erica Murphy, segir hann hafa fyrst lesið um fjársjóðinn í tímariti um borð í flugvél og síðan lesið bók Fenns þar sem ljóðið er birt. Hún segir að hann hafi elskað hugarleikfimi og sömuleiðis að vera úti í náttúrunni.
Hún segist ekki áfellast Fenn enda hafi eiginmaður hennar vitað hvaða áhættu hann væri að taka. Þegar ekki spurðist til hans bauðst Fenn til þess að greiða fyrir björgunarþyrlu. Fenn sagði hins vegar að hann hefði aldrei komið á þær slóðir þar sem lík Murphys fannst. Hann hafi því verið að leita á röngum stað.
Hinir sem látist hafa við leit að fjársjóðnum eru Paris Wallace, 54 ára gamall prestur frá Colorado, sem lést síðasta sumar í Nýju-Mexíkó, Eric Ashby, 31 árs, sem lést þegar bát hans hvolfdi á Arkansas-ánni, og Randy Bilyeu, 54 ára, sem lést á ánni Rio Grande.
Fenn hefur sagt að fjársjóðurinn sé ekki falinn á stað sem erfitt sé að komast á. Hann geti, þrátt fyrir að vera orðinn vel fullorðinn, komist á staðinn. Skiptar skoðanir eru um uppátækið. Telja sumir rétt að stöðva leitina en aðrir benda á að hún hafi einmitt leitt til þess að fjöldi fólks hafi lagt land undir fót.