„Krakkarnir eru það sem hefur breyst“

Aðgerðasinnar og nemendur Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólans í Flórída mótmæla …
Aðgerðasinnar og nemendur Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólans í Flórída mótmæla hér við þinghúsið í Tallahassee í Flórída. Verjum börn ekki byssur, stendur á einu spjaldinu. AFP

Aðeins nokkrum klukkustundum eftir blóðbaðið í Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­an­um í Flórída, þar sem Nicholas Cruz myrti 17 manns á Valentínusardaginn, voru fylgjendur og andstæðingar hertrar byssulöggjafar komnir sínar í hefðbundnu skotgrafir.

Everytown for Gun Safety, hópur sem Michael Bloomberg fyrrum borgarstjóri New York stofnaði og fjármagnar, birti strax næsta dag auglýsingu í New York Times þar sem þeir þingmenn sem styðja skotvopnaeign Bandaríkjamanna voru gagnrýndir.

Annar hópur hefur undanfarið kaffært þingmenn Flórídaríkis með símtölum og tölvupóstum þar sem frumvarpi sem heimilar skotvopn í skólum er mótmælt.

Lorenzo Prado, nemandi í Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólanum flytur hér …
Lorenzo Prado, nemandi í Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólanum flytur hér ræðu í þinghúsinu í Tallahassee. AFP

NRA, samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, fylgdu sinni hefðbundnu stefnu. Létu ekkert í sér heyra fyrst í stað á meðan að fyrsta sorgaraldan reið yfir, en nýttu sé síðan sjónvarpsstöð samtakanna NRATV til að flytja þau rök að fjölgun skotvopna í skóla gæti komið í veg fyrir blóðbað af þessari stærðargráðu.

Krakkarnir sterkt afl

Framhaldsskólanemendur Flórídaríkis þykja hins vegar hafa hleypt nýju lífi í baráttuna um herta byssulöggjöf og hefur baráttuandi þeirra vakið mikla athygli fjölmiðla. Krakkarnir hafa m.a. verið ötul við að skipuleggja mótmælafundi t.a.m. við þinghúsið í Tallahassee í Flórída á miðvikudag, en þann dag fóru þúsund­ir stuðnings­manna herts eft­ir­lits í mót­mæla­göng­ur í Banda­ríkj­un­um, m.a. í Washingt­on, Minn­ea­pol­is og Chicago.

Þá hafa nemendurnir verið duglegir við að búa til mótmælaskilti, láta þingmenn svara fyrir byssulöggjöfina og með því að sýna sig vera skýr og skelegg í fjölmiðlaumræðu um málið.

„Krakkarnir eru það sem hefur breyst og þau eru orðin sterkt afl,“ hefur New York Times eftir Matt Bennett, stofnanda Third Way, ráðgjafafyrirtækis sem er vinstra megin við miðju. „Það veit enginn hvenær hápunktinum verður náð. Mögulega hefur það nú þegar gerst – við vitum það ekki. En ef svo er þá er það þeim að þakka.“

Þá hvetur einni pistlahöfundur Washington Post krakkana til að hætta ekki baráttunni og mælir raunar með að þau grípi næst til verkfallsvopnsins.

Cameron Kasky er upphafsmaður #Never Again herferaðinnar. Hann spurði Marco …
Cameron Kasky er upphafsmaður #Never Again herferaðinnar. Hann spurði Marco Rubio, fyrrverandi forsetaframbjóðanda og þingmann Flórída í þinghúsinu í Tallahassee, í beinni útsendingu CNN hvort hann muni þiggja fjárframlög frá NRA í framtíðinni. AFP

„Takk allir stríðsmenn“

En hvaða krakkar eru það sem eru þarna fremst í flokki fylkingar og sem nú eru jafnvel orðin fórnarlömb nettrölla sem ata þau auri?

Hinn 17 ára gamli Cameron Kasky sem kom fyrst upp með slagorðið #NeverAgain, eða #Aldrei aftur, hefur lýst sjálfum sér sem trúði bekkjarins. Daginn sem skotárásin átti sér stað birti hann hæðna færslu á Facebook-síðu sinni. „Ég er óhultur ... Takk allir stríðsmenn annarrar grein stjórnarskrárinnar og hvernig þið vörðuð mig“. Tveimur dögum eftir árásina bjó hann síðan til myllumerkið #NeverAgain og hvatti fólk til að dreifa því sem víðast á samfélagsmiðlum.

Á miðvikudag sveif hann síðan á Marco Rubio, fyrrverandi forsetaframbjóðanda og þingmann Flórída í þinghúsinu í Tallahassee, og spurði hann í beinni útsendingu CNN hvort hann muni þiggja fjárframlög frá NRA í framtíðinni.

Eldheitar ræður Emmu Gonzalez fyrir hertri byssulöggjöf hafa vakið athygli. …
Eldheitar ræður Emmu Gonzalez fyrir hertri byssulöggjöf hafa vakið athygli. Nemendurnir ætla að mótmæla í Washington í mars. AFP

Annað hvort með okkur eða á móti

Hin 18 ára Emma Gonzales hefur ekki síður vakið athygli fyrir mælsku sína. AFP segir mörgun raunar hafa vöknað um augu er Gonzales sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta og öðrum stjórnmálamönnum sem taka við framlögum frá NRA að „skammast sín“ á mótmælafundi gegn byssulöggjöfinni.

Eldheitar ræður hennar hafa átt sinn þátt í að safna fé fyrir mótmælagönguna „March for Our Lives“ sem fer fram 24. mars, þegar mótmælt verður um gjörvöll Bandaríkin. En þann dag ætla nemendurnir ætla að fjölmenna til Washington. „Þegar hingað er komið eru þið annað hvort með okkur eða á móti,“ segir Gonzales.

Þegar hafa safnast tvær milljónir hið minnsta, m.a. frá Hollywood-stjörnum á borð við George Clooney og mannréttindalögfræðinginum konu hans Amal, þáttastjórnandanum Opruh Winfrey, leikstjóranum Steven Spielberg og eiginkonu hans leikkonunni Kate Capshaw og kvikmyndaframleiðandanum Jeffrey Katzenberg.

David Hogg faldi sig í skáp ásamt samnemendum og tók …
David Hogg faldi sig í skáp ásamt samnemendum og tók við þau viðtal á meðan að árásin átti sér stað. Myndbandið hefur fengið mikla dreifingu á samfélagsmiðlum. AFP

„Ég er maður sem þurfti að upplifa þetta

Hinn 17 ára gamli David Hogg faldi sig í skáp í skólanum er blóðbaðið átti sér stað. Þrátt fyrir óttann sem hann upplifði þá tók hann upp viðtöl við samnemendur sína á meðan að þeir földu sig. Myndbandið fór strax á flug og hefur hlotið mikla útbreiðslu á samfélagsmiðlum.

Hogg hefur í kjölfarið tekið þátt í #NeverAgain herferðinni, en undanfarna daga hafa nettröllinn keppst við að ata hann auri. Faðir Hogg er fyrrverandi lögreglumaður í bandarísku alríkislögreglunni FBI, en hægri sinnaðir samsæriskenningasmiðir telja FBI standa að baki skuggalegri herferð til að fella Trump.

Hoggs hefur þess vegna orðið fyrir netárásum og verið sakaður um að hafa verið að leika. Honum hafi verið greitt fyrir að fara á staði þar sem hörmungar eigi sér stað og koma þar á framfæri skoðunum frjálslyndra.

„Ég er ekki leikari,“ segir Hogg. „Ég er maður sem þurfti að upplifa þetta og lifa með því og ég mun þurfa að halda því áfram. Ég er ekki að koma fram fyrir neinn annan.“

Nemendur á Flórída ræða hér við þingmanninn Al Lawson og …
Nemendur á Flórída ræða hér við þingmanninn Al Lawson og fyrrverandi þingmann Flórídaríkis Jeremy Ring í þinghúsinu í Tallahassee á miðvikudag. AFP

Búin að fá nóg af bænum

Fjórði nemandinn er hin 17 ára gamla Delaney Tarr. Hún var í hópi þeirra hundruð Flórída nema sem söfnuðust saman á þinghúströppunum í Tallahassee og krafðist hertrar byssulöggjafar.

„Við erum búin að fá nóg af bænum og hugsunum,“ sagði hún. „Við ætlum að elta uppi hvern og einn ykkar og krefjast þess að þið gerið eitthvað.“ Líkt og aðrir bandarískir krakkar á hennar aldri þá hefur hún vaxið úr grasi undir ógninni af skotárásum í skólum. Hún ber því alltaf bíllyklana með sér og hafði þá hugmynd að hún gæti falið sig í bílnum ef einhvern tímann kæmi til árásar. Þegar það síðan gerðist, endaði hún á því að fela sig inn í skáp með samnemendum sínum.

Ekki eru allir þó bjartsýnir á að barátta nemanna dugi til og gamalreyndir stjórnmálamenn bæði demókrata og repúblikana segja lítið hafa breyst í Washington. Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafi ekki tekist að koma breytingum á byssulöggjöf í gegnum þingið 2013 eftir árásina í Sandy Hook  þar sem 26 létust, þrátt fyrir að demókratar hefðu þá meirihluta í öldungadeildinni. Því sé ólíklegt að eitthvað slíkt gerist með Trump í Hvíta húsinu og Repúblikanaflokkinn í meirihluta í báðum deildum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert