Fleiri fyrirtæki slíta tengsl við NRA

Flugfélögin United og Delta bættust í hóp fyrirtækja sem eru …
Flugfélögin United og Delta bættust í hóp fyrirtækja sem eru hætt að veita félagsmönnum NRA afslætti. AFP

Enn fleiri fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa slitið öll tengsl við Sam­tök byssu­eig­enda í land­inu, NRA, eftir skotárásina í Flórída í Bandaríkjunum. Flugfélögin United og Delta bættust í hóp bíla­leig­anna Hertz og Enterprise sem buðu báðar upp á af­slætti fyr­ir fé­lags­menn sam­tak­anna. BBC greinir frá

Hávær krafa er um að byssulöggjöf verði hert í landinu eftir að 17 manns voru myrtir í Marjory Stoneman Douglas skólanum. Neyt­end­ur hafa hvatt til þess að viðskipta­vin­ir sam­tak­anna sniðgangi þau, hætti viðskiptum við þau og/eða hætti að veita þeim ýmsa afslætti og vildarkjör. Þrýstingurinn hefur aukist á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #BoycottNRA

Rick Scott, rík­is­stjóri Flórída, hefur lagt til að aldur til að kaupa skotvopn í Bandaríkjunum verði hækkaður úr 18 árum upp í 21 ár. Hann hefur verið undir miklum þrýstingi eftirlifenda skotárásarinnar um að breyta byssulögunum. Fram að þessu hefur hann verið talinn fylgismaður vopnalöggjafarinnar í Bandaríkjunum en hann er repúblikani líkt og forseti landsins Donald Trump sem er fylgjandi byssueign almennings. 

Hart er tekist á um byssulögin líkt og oft áður í Bandaríkjunum. Í fyrradag hélt yf­ir­maður NRA, Wayne LaPier­re, ræðu eftir skotárásina. Ræðan hef­ur farið illa í marga en hann var mjög harðorður er hann varði rétt Banda­ríkja­manna til að bera skot­vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka