Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann hefði hlaupið inn í framhaldsskólann í Flórída þar sem 17 manns voru skotnir til bana, jafnvel þó að hann hefði verið óvopnaður.
„Ég trúi því staðfastlega að ég hefði hlaupið inn í skólann jafnvel þó að ég væri óvopnaður,“ sagði forsetinn á samkomu ríkisstjóra í Hvíta húsinu í dag.
„Ég held að flestir hér inni hefðu gert það sama,“ bætti Trump við.
Trump sagði einnig að það væri „ógeðfellt“ að vopnaður lögreglumaður sem hafði það hlutverk að hafa eftirlit með nemendum skólans aðhafðist ekkert þegar árásin átti sér þar stað.
Skotárásin átti sér stað 14. febrúar og situr árásarmaðurinn, 19 ára fyrrverandi nemandi við skólann, í gæsluvarðhaldi.
Trump hefur sagst styðja tilraunir til að bæta eftirlit og bakgrunnsskoðanir á fólki sem kaupir byssur.