Þeir sem handteknir eru fyrir að fremja innbrot, selja fíkniefni eða fremja skemmdarverk í einu af svo nefndum „gettóum“ danskra borga og bæja, geta í framtíðinni átt von á helmingi þyngri refsingu fyrir brot sín en ef þeir hefðu brotið af sér annars staðar.
Þetta er meðal þeirra áætlana sem dönsk stjórnvöld skoða nú að grípa til í því skyni að fækka glæpum í þessum skilgreindu vandamálahverfum, þar sem efnahagur íbúa er oft skertur, að því er danska dagblaðið Berlingske Tidende greinir frá.
Segir blaðið dómsmálaráðherrann Søren Pape Poulsen ætla að leggja til að refsing verði þyngd um helming á fyrirframskilgreindum svæðum í því skyni að tryggja öryggi þeirra sem þar búa.
„Það á að vera öruggt að vera alls staðar í Danmörku. Hér eiga ekki að vera sérstök svæði þar sem er augljóslega hættulegra að vera en annars staðar,“ segir Poulsen í samtali við Berlingske. „Þetta er áskorunin sem við stöndum frammi fyrir með þessu hliðstæða samfélagi.“
Danska ríkisútvarpið DR segir dönsku stjórnina ætla að kynna tillögur sínar um aðgerðir á fimmtudag, en auk refsiþyngingar hljóði þær einnig upp á að auka lögreglustyrk á slíkum svæðum. Verði þetta m.a. gert með því að koma á fót þremur færanlegum lögreglustöðvum. Eins verði eftirlit aukið og gripið verði til 25 stórra lögregluaðgerða næsta árið. Þá eigi lögregla að leggja aukna áherslu á að bera kennsl á þá einstaklinga sem virðast vera í hringiðu glæpanna á hverju svæði.
Berlingske segir Jafnaðarmannaflokkinn, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, vera jákvæðan í garð hugmyndanna. Hefur blaðið eftir Trine Bramsen, talsmanni flokksins, að Jafnaðarmannaflokkurinn hafi áður farið fram á að löggæsla verði aukin í þessum hverfum.
Talsmenn hverfasamtaka í þessum hverfum í Árósum og Kaupmannahöfn eru hins vegar öllu tortryggnari í garð hugmyndanna og segja þær vera mismunun og pólitík í sinni verstu mynd.
Muhammed Aslam, formaður hverfissamtaka Mjølnerparken á Nørrebro í Kaupmannahöfn, segir tillöguna gefa í skyn að ekki séu allir jafnir gagnvart lögunum. „Það á greinilega að vera A-deild og B- deild í okkar þjóðfélagi,“ segir Aslam en að hans mati sé um árás í garð hverfanna að ræða.
„Að farið sé að mismuna á þennan hátt gengur út yfir öll mörk og líkist engu sem ég kannast við hvorki í lýðræðisríkjum né andstæðu þeirra.“ Í sama streng tekur formaður hverfissamtaka í Árósum sem segir frekar eiga að leggja áherslu á fjölskyldurnar sem þar búa og að koma ungmennunum úr þessum aðstæðum.
Skilgreining ákveðinna hverfa sem vandræðahverfa veitir lögreglu nú þegar auknar valdheimildir innan hverfanna, samkvæmt nýlegri reglugerð.