Gyðingahatur lá að baki morðinu

Sarah Halimi - mynd sem fjölskylda hennar lét fjölmiðla fá.
Sarah Halimi - mynd sem fjölskylda hennar lét fjölmiðla fá. Úr einkasafni

Gyðingahatur lá að baki hrottalegu morði í Frakklandi í fyrra, samkvæmt ákæru sem gefin hefur verið út yfir tæplega þrítugum Parísarbúa. 

Saksóknari í París hefur ákveðið að bæta gyðingahatri við morðákæru yfir Kobili Traore en mjög hefur verið þrýst á hann um það undanfarna mánuði, bæði alþjóðlega og innanlands um að bæta hatursglæp við ákæruna.

Traore, sem er 27 ára gamall var nágranni Sarah Halimi, 65 ára,  í Belleville-hverfinu í París. Hann braust inn í íbúð hennar að kvöldi til 3. apríl í fyrra og barði hana til óbóta áður en hann henti henni út um glugga á íbúðinni. Ekki er vitað hvort hún lést af völdum barsmíða eða fallinu af þriðju hæð.

Fram kemur í fréttum franskra fjölmiðla að Traore hafi kallað Allah Akbar (Guð er mikill) og farið með vers úr kóraninum áður en hann henti henni út um gluggann. „Ég hef drepið djöfulinn,“ á hann að hafa kallað á arabísku. 

Við blóðrannsókn kom í ljós að hann hafði neytt mikils magns kannabis áður en hann framdi morðið. Traore segir sjálur að honum hafi ekki verið sjálfrátt og að hann glími við alvarleg andleg veikindi. Hann var hins vegar metinn sakhæfur við rannsókn dómkvaddra geðlækna.

Harkaleg umræða var og hefur verið í frönsku samfélagi eftir morðið þar sem tekister á um gyðingahatur í ákveðnum hverfum Parísar og víðar en Halimi, sem var þriggja barna móðir og læknir á eftirlaunum, var eini gyðingurinn sem bjó í fjölbýlishúsinu þar sem morðið var framið.

Traore er múslími frá Malí. Hann er bæði fíkniefnasali og neytandi og hélt því fram, eins hér kom fram að framan, að hann væri veikur á geði. 

Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla ruddist Traore fyrst inn í aðra íbúð en fjölskylda sem þar býr náði að læsa sig inni í svefnherbergi enda var Traore sturlaður af reiði eftir fjölskyldurifrildi. íbúarnir hringdu í neyðarlínuna og biðu á milli vonar og ótta inni í herberginu á meðan Traore æpti og öskraði á frönsku og arabísku í stofunni. Lögreglan brást við hjálparbeiðni fjölskyldunnar en fór fyrst á rangan stað í hverfinu. 

Traore klifraði af svölum fjölskyldunnar yfir í íbúð Halimi og þegar lögreglan kom loks á vettvang ákvað hún að bíða með að fara inn í húsið fyrr en sérsveitarmenn væru komnir á vettvang enda Traore álitinn hættulegur.

Á sama tíma rigndi inn símtölum til neyðarlínunnar þar sem nágrannar létu vita af ópum innan úr íbúðinni. Greindu þeir frá því að greinilega væri verið að ganga í skrokk á konunni og veinin í henni ómuðu um allt hús. Heyrði fólk Traore öskra á hana að þegja, ákalla guð og henda henni síðan út um gluggann. 

Eftir það fór hann aftur inn í íbúðina þar sem fjölskyldan hafði læst sig inni í herbergi og beið lögreglunnar. Lá hann á bæn þegar lögregla kom loksins inn í íbúðina og handtók hann.

Í sumar tók saksóknari Parísar, François Molins, við rannsókninni en hann taldi að ekki væri hægt að ákæra manninn fyrir gyðingahatur sem ástæðu morðsins. Hann hefur nú skipt um skoðun en mjög hefur verið sótt að honum af hálfu gyðinga í Frakklandi og víðar vegna málsins.

Libération birti ítarlega umfjöllun um málið í júní í fyrra og þar kom fram að Traore hefði aldrei dvalið á geðdeild á ævinni en hann hafi hins vegar eytt nokkrum árum á bak við lás og slá fyrir alvarleg ofbeldisbrot og eiturlyfjasölu.

Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað ítarlega um morðið undanfarna mánuði en það þykir enn eitt dæmið um aukið gyðingahatur í Frakklandi. Um hálf milljón gyðinga er búsett í Frakklandi. Einn þeirra sem gagnrýndi rannsókn málsins, eða hversu lítil áhersla hafi verið lögð á það hjá  lögreglunni er forseti Frakklands, Emmanuel Macron.

Times of Israel

Le Monde

20Min

Liberation

Le Parisien

Le Point

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert