Ítalska mafían hefur bein tengsl við stjórnmálamenn Slóvakíu. Þetta kemur fram í síðustu blaðagreininni eftir rannsóknarblaðamanninn Jan Kuciak sem var myrtur nýverið ásamt kærustu sinni. Greinin birtist að honum látnum á á miðlinum aktuality.sk og einnig á öðrum miðlum.
Lögreglan telur að orsök morðsins megi rekja til skrifa blaðamannsins um skatta- og spillingarmál í landinu. Í greininni er meðal annars bent á bein tengsl við nána samstarfsmenn forsætisráðherra Slóvakíu Robert Fico auk annarra stjórnmálamanna við hin alræmdu ítölsku 'Ndrangheta-glæpasamtök. Glæpasamtökin eru sögð starfa í austurhluta Slóvakíu og hafi gert sig heimakomin undir verndarvæng stjórnmálamanna.
Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að innanríkisráðherrann og lögreglustjórinn segi af sér fyrir að bregðast því að vernda Kuciak. Kuciak sem var 27 ára gamall þegar hann var skotinn til bana á heimili sínu í austurhluta borgarinnar Bratislava hafði tilkynnt lögreglu um hótanir sem honum hafði borist vegna starfa sinna.
Mótmæli hafa verið skipulögð í borginni í dag og á föstudaginn þar sem aðgerða er krafist.