Nokkrir kaupsýslumenn í haldi vegna morðs

Lögreglan í Slóvakíu hefur handtekið nokkra ítalska kaupsýslumenn í tengslum við rannsókn á morði á blaðamanni og sambýliskonu hans á sunnudag.

Mennirnir sem eru í haldi tengjast allir rannsóknum blaðamannsins, Jan Kuciak, á skipulagðri glæpastarfsemi.

Ríkislögreglustjóri Slóvakíu, Tibor Gaspar, staðfestir að nokkrir séu í haldi og húsleitir hafi verið gerðar á nokkrum stöðum. Hluti hinna handteknu séu nefndir með nafni í skjölum Kuciak. 

Forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, bauð þeim sem veitt gæti upplýsingar um morðin eina milljón evra í verðlaun.  

Jan Kuciak, 27 ára og unnusta hans, Martina Kusnirova, voru skotin til bana á heimili sínu. Nokkur dagblöð í Slóvakíu hafa birt síðustu grein Kuciak þar sem fjallað er um tengsl ítölsku mafíunnar við háttsetta stjórnmálamenn. 

Fico hélt blaðamannafund um málið á þriðjudag og við hlið hans voru snyrtilegir staflar af peningaseðlum, peningum sem hann hét þeim sem veitt gætu upplýsingar um morðið. Starfssystkini Kuciak segja að yfirvöld þurfi ekki að leita lengi - nóg sé að lesa síðustu grein hans. Þar eru kaupsýslumenn í Austur-Slóvakíu, með tengsl við mafíuna í Calabría, 'Ndrangheta, sakaðir um að hafa svikið fé útúr uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins. Jafnframt að mafían sé með pólitísk tengsl inn í landið.

Þegar lík þeirra Jan Kuciak og Marina Kusnirova fundust á sunnudag, en þau höfðu bæði verið skotin einu skoti, á heimili sínu var fjölmiðlafólki í Slóvakíu mjög brugðið enda í fyrsta skipti sem fjölmiðlamaður er myrtur þar í landi fyrir skrif sín.

Að sögn lögreglu voru þau myrt af leigumorðingja og að morðin tengdust væntanlega skrifum Kuciak. 

Kuciak hafði undanfarið unnið með samtökum rannsóknarblaðamanna sem skrifa um skipulagða glæpastarfsemi og spillingu (OCCRP) og tékkneskri rannsóknarblaðastofnun (CCIJ) og ítalskri rannsóknarblaðamennskustofnun (IRPI) að verkefni sem snýr að mafíunni.

Samtökin ‘Ndrangheta ráða yfir kókaínmarkaðnum í Evrópu og koma víða við á ólöglegum markaði. Svo sem vopnasmygl, fjársvik, kúganir, mansal og svo mætti lengi telja.

Þegar Kuciak var myrtur hafði hann í raun ekki lokið gagnaöflun og var að safna upplýsingum um menn sem ítalska lögreglan álítur gríðarlega hættulega.

Eftir morðið fóru upplýsingar úr umfjöllun hans að leka út og ákvað fréttavefurinn þar sem hann starfaði, Aktuality.sk, að birta greinina í þeirri von að draga úr hættu annarra sem unnu að verkefninu.

Kuciak og félagar hófu rannsóknina á því að rannsaka ráðningu Maria Troskova sem aðstoðarkonu forsætisráðherrans, Robert Fico. Troskova var 27 ára þegar hún hóf störf en hún hafði áður starfað sem fyrirsæta og hafði meðal annars keppt í Miss Universe. 

Þegar Kuciak og hópurinn sem hann starfaði með skoðaði málið betur kom ýmislegt forvitnilegt í ljós. Svo sem að Troskova hafði áður verið viðskiptafélagi  Ítalans  Antonino Vadala. Hann býr í Slóvakíu og nokkur landbúnaðarfyrirtæki í austurhluta landsins. 
En Troskova hóf feril sinn í viðskiptalífinu sem aðstoðarmaður fyrrverandi stjórnmálamanns, Pavol Rusko, sem átti áður sjónvarpsstöðina TV Markiza. Rusko var handtekinn nýverið grunaður um að hafa ráðið leigumorðingja til starfa til að myrða viðskiptafélaga sinn fyrir nokkrum áratugum. 

Einn þeirra sem er nefndur í skjölum lögreglunnar á Ítalíu varðandi eiturlyfjaviðskipti  ‘Ndrangheta er Antonino Vadala. Er talið að hann stýri að hluta kókaínviðskiptum glæpasamtakanna. Ekki hefur verið upplýst um hvort hann sé einn þeirra sem var handtekinn í aðgerðum lögreglu í Slóvakíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert