Ríkisstjórn Danmerkur kynnti í gær áætlun um lokun gettóa. Kynningin fór fram í Mjølnerparken í Kaupmannahöfn sem er eitt af þeim svæðum sem stjórnvöld í Danmörku skilgreina sem gettó. Forsætisráðherra, Lars Løkke Rasmussen, kynnti breytingarnar ásamt sjö öðrum ráðherrum. Hann segir þær hvorki tengjast kynþætti né trú.
En hann segir að of margir íbúar Danmerkur sem ekki eru af vestrænum uppruna séu ekki að skila nægu til samfélagsins og að ríkisstjórnin væri ekki reiðubúin að sætta sig við það. Þetta kemur fram í frétt Politiken.
Danska ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðaráætlun um að útrýma gettóum fyrir árið 2030 en hægt er að lesa nánar um áætlunina hér.
„Við höfum enn tíma til þess að snúa þróuninni við en við verðum að grípa til aðgerða strax,“ segir Rasmussen. Hann tekur fram að flestir þeirra sem ekki eru með vestrænan bakgrunn skili sínu til þjóðfélagsins en því miður ekki allir. Hann hafi miklar áhyggjur af þessu og miklu skipti að Danmörk haldi sínu og sínum sérkennum. Ákveðin svæði í Danmörku séu þannig að hann hreinlega þekki sig ekki þar lengur.
Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin boðar er harðari refsistefna á ákveðnum svæðum og bætt aðgengi að dagvist ofl. Meðal annars verði 12 milljarðar danskra króna settir í niðurrif og uppbyggingu húsa á þessum svæðum á árunum 2019 til 2026. Fjárfest verði í þessum svæðum og þeim breytt í venjuleg hverfi, segir innanríkisráðherra Danmerkur, Simon Emil Amitzbøll-Bill.
Jafnframt verður það gert saknæmt þegar foreldrar senda börnin sín í menningarferðalög til landsins sem þeir koma frá. Ferðum sem er ætlað að styrkja tengsl við upprunalandið. Allt að fjögurra ára fangelsi liggur við slíkum ferðum en í einhverjum tilvikum er verið að senda börnin á átakasvæði, segir í fréttum danskra fjölmiðla í gær af kynningarfundinum.
Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eiga á hættu að þær lækki ef þeir flytja á eitthvað þeirra sextán svæða sem eru skilgreind sem gettó.