Bandalag Berlusconi með flest atkvæði

Silvio Berlusconi kemur út úr kjörklefanum í Mílanó í dag.
Silvio Berlusconi kemur út úr kjörklefanum í Mílanó í dag. AFP

Flokkabandalag sem Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, leiðir fékk flest atkvæði í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í dag, samkvæmt útgönguspám sem birtar voru í kvöld. Bandalagið er þó ekki með meirihluta atkvæða samkvæmt spánum. 

Demókrataflokkurinn, sem nú fer með völdin, er þriðji stærsti þingflokkurinn samkvæmt útgönguspánum. 

Berlusconi var forsætisráðherra í þrjú kjörtímabil. Hann er orðinn 81 árs.

Samkvæmt útgönguspánni fékk kosningabandalag hægri flokkanna á milli 31 og 41% atkvæða og poppúlistaflokkurinn Fimm stjörnu hreyfingin kom þar á eftir með 29-32% greiddra atkvæða. 

Kosningabaráttan á Ítalíu hefur verið hörð og einkennst af átökum um innflytjendamál og hægum efnahagsbata í landinu síðustu ár. 

Kosningabandalag hægri flokkanna hefur heitið því að vísa um 600 þúsund „ólöglegum flóttamönnum“ úr landi og takmarka komu nýrra flóttamanna. 

Steve Bannon, fyrrverandi aðstoðarmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lét hafa eftir sér nýverið að meirihlutastjórn Fimm stjörnu hreyfingarinnar og kosningabandalags Berlusconi væri „hinn eini sanni draumur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert