Fjögur ár frá hvarfi MH370

Í gær voru fjögur ár liðin frá því að vél Malaysian Airlines, MH370, hvarf sporlaust á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking. Enn einu sinni er hafin leit að flaki hennar og malasísk yfirvöld segja að hún muni standa þar til um miðjan júní. Leitin hefur enn á ný kveikt von í brjósti ástvina þeirra 239 sem voru um borð.

Ekkert fannst af vélinni við umfangsmikla leit á um 120 þúsund ferkílómetra hafsvæði í leit sem stóð þar til í janúar í fyrra. Leitin er sú umfangsmesta sem gerð hefur verið í sögunni.

Malasísk stjórnvöld sömdu við leitarfyrirtækið Ocean Infinity að það fengi ekkert greitt nema að finna eitthvað og því hefur verið ákveðið að halda leitinni áfram norður af svæðinu sem leitað var á þar til í fyrra en á því svæði telja menn nú líklegast að flak vélarinnar sé að finna.

Leitin hófst í raun í janúar er rannsóknarskip með átta dróna hóf að skanna hafsbotninn á svæðinu. Henni átti að ljúka nú í mars en ákveðið hefur verið að framlengja hana þar til um miðjan júní. 

„Vonandi tekst okkur nú að finna staðsetningu MH370,“ sagði flugmálastjóri Malasíu við ástvini farþega og áhafnar sem söfnuðust saman í minningarstund í Kuala Lumpur í gær. 

Í lok febrúar hafði rannsóknarskipið kannað um 8.200 ferkílómetra svæði af því 25 ferkílómetra svæði sem fyrirhugað er að kanna. 

Jacquita Gonzales, eiginkona flugþjónsins Patrick Gomes sem var um borð í vélinni, segist vera þakklát fyrir að enn sé leitað. „Þeir hafa ekki gefist upp og það höfum við ekki heldur gert.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka