Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist hugsanlega ætla að vera viðstaddur opnun umdeilds nýs sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem í maí næstkomandi. Forsetinn viðurkenndi í desember á síðasta ári Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael, en ákvörðunin var fordæmd af alþjóðasamfélaginu. AFP-fréttastofan greinir frá.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, heimsótti Trump í Hvíta húsið í dag og lét forsetinn þau orð falla að hann yrði hugsanlega viðstaddur opnunina. Er það væntanlega til að undirstrika þau sterku bönd sem Trump segir vera á milli Bandaríkjanna og Ísrael.
Trump sagði að samband Bandaríkjanna og Ísrael hefði aldrei verið betra og opnaði á hugmyndina um að hann heimsækti sendiráðið við opnun þess. Yrði sú heimsókn meiriháttar diplómatísk áskorun og einnig áskorun hvað öryggismál varðar.