Hvað gerist næst á Ítalíu?

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. AFP

Allt er í lausu lofti í ítölskum stjórnmálum eftir þingkosningarnar í gær. Enginn einn flokkur nýtur stuðnings meirihluta kjósenda og ekkert kosningabandalag heldur. Aftur á móti er ljóst að popúlistar eru sigurvegarar dagsins. 

Lokaniðurstöður liggja ekki enn fyrir en núverandi stjórnarflokkar, bandalag miðju- og vinstri flokka, hafa játað ósigur í þingkosningunum. 

Allt bendir til þess að bandalag hægri flokka undir stjórn fyrrverandi forsætisráðherra, Silvio Berlusconi, hafi fengið flest atkvæði í neðri deild þingsins eða 248-268 sæti. Til þess að ná meirihluta þarf 316 þingsæti. Því má búast við því að það taki margar vikur að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Ítalska dagblaðið Il Fatto Quotidiano segir einfaldlega á forsíðu sinni í dag: Allt mun breytast.

Þrátt fyrir að enginn flokkur eða bandalag geti stýrt landinu án stuðnings frá fleiri flokkum er greinilegt að Brexit Breta og kjör Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna eru þær stefnur sem hafa haft áhrif á hug kjósenda. Því helstu gagnrýnendur evrunnar og Evrópusambandsins í ítölskum stjórnmálum, fyrir utan smáflokka, Fimmstjörnuhreyfingin bætir verulega við sig fylgi í kosningunum nú. Flokkurinn er stærsti einstaki flokkur á þingi eftir kosningarnar með 216-236 sæti í neðri deildinni.

Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins.
Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins. AFP

Reiði almennings vegna atvinnuástandsins í landinu og fjölgun flóttamanna og útlendinga á Ítalíu hefur sett mjög strik í reikninginn fyrir Demókrataflokkinn og segir Maurizio Martina landbúnaðarráðherra að þetta sé hreinn og klár ósigur, en flokkurinn er aðeins með 107-127 sæti í neðri deildinni.

Þrátt fyrir kosningasigur er ljóst að Berlusconi, sem er 81 árs að aldri, getur ekki sest í stól forsætisráðherra – að minnsta kosti ekki fyrr en á næsta ári vegna dóms sem hann er með á bakinu fyrir skattsvik. Í bandalaginu eru auk flokks Berlusconi, Forza Italia, tveir flokkar, (Norður-) Bandalagið, sem berst gegn innflytjendum, og Bræður Ítalíu – sem er flokkur mjög til hægri.

Leiðtogi Bandalagsins, Matteo Salvini, segir á Twitter: Mín fyrstu orð eru takk fyrir. Enda hefur hann tilefni til þess að gleðjast því loforð flokks hans um að vísa úr landi hundruðum þúsunda hælisleitenda hefur greinilega glatt ítalska kjósendur og eins varnaðarorð hans í garð íslam en hann hefur ítrekað varað við hættunni af íslam í kosningabaráttunni. Er nú talið að hann muni krefjast þess að mynda næstu ríkisstjórn. En Berlusconi, sem hefur fjórum sinnum gegnt embætti forsætisráðherra, styður forseta Evrópuþingsins, Antonio Tajani, í það embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka