Grunaður um að stela fíkniefnum og selja þau

Norskur lögreglumaður á sextugsaldri er grunaður um stuld á fíkniefnum …
Norskur lögreglumaður á sextugsaldri er grunaður um stuld á fíkniefnum og sölu þeirra auk nokkurra annarra afbrota og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 21. febrúar. Mynd úr safni. AFP

Stuldur á fíkniefnum úr geymslum lögreglu, hugsanlega sala þeirra auk handhafnar lyfseðilsskyldra lyfja án tilheyrandi lyfseðils, kynferðisbrot gagnvart þolanda annars afbrots, tilraun til að fá vitni til að breyta framburði sínum og glæfraakstur ómerktrar lögreglubifreiðar er meðal meintra brota lögregluþjóns í Oppland-fylki í Noregi sem rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar (n. spesialenheten for politisaker) rannsakar um þessar mundir.

Glæfraaksturinn er reyndar ekki meint brot lengur, maðurinn var sakfelldur fyrir hann í fyrra og gert að inna af hendi samfélagsþjónustu fyrir brot sitt. Það sem út af borðinu stendur er enn til rannsóknar og hefur maðurinn setið í gæsluvarðhaldi síðan 21. febrúar.

Að sögn Knut Wold, sem fer með stjórn rannsóknarinnar, veltir rannsóknardeildin því nú fyrir sér hvort hún muni fara fram á framlengingu gæsluvarðhaldsins en hinn grunaði mótmælti upphaflegum gæsluvarðhaldsúrskurði og hefur lítið tjáð sig um það sem honum er gefið að sök. Wold segir norska ríkisútvarpinu NRK að innra eftirlitið líti málið sínum alvarlegustu augum.

Kynferðislegt samneyti við brotaþola í krafti stöðu sinnar

Málið kom til kasta rannsóknardeildarinnar í apríl í fyrra en sá sem böndin berast að starfaði í Vestoppland sem fellur undir Innlandet-lögregluumdæmið. Þá hafði kviknaði grunur um að þessi tiltekni lögreglumaður stæði á bak við hvarf fíkniefna úr haldlagningargeymslu lögregluembættisins og seldi jafnvel þýfi sitt. Frá þessu greinir meðal annars dagblaðið Oppland Arbeiderblad en þar er enn fremur greint frá því að lögreglumaðurinn hafi notfært sér stöðu sína til að knýja fram kynferðislegt samneyti við konu sem var brotaþoli í máli sem hann kom að. Nokkuð er þó um liðið síðan þeir atburðir eiga að hafa gerst.

Maðurinn var leystur frá störfum þegar eftir að grunsemdir um fíkniefnastuldinn komu upp í fyrra en um svipað leyti fundust einnig lyfseðilsskyld lyf í fórum hans sem enginn læknir hafði skrifað upp á, að minnsta kosti ekki fyrir hann.

Auk framangreinds er lögreglumaðurinn grunaður um ítrekaðar tilraunir til að hafa áhrif á framburð konunnar sem hann er grunaður um að hafa átt kynferðisleg samskipti við og á hann meðal annars að hafa boðið henni peninga fyrir að halla réttu máli. Þessi hluta brotanna varðar við 157. grein norsku hegningarlaganna eins og dagblaðið VG og fleiri fjölmiðlar hafa greint frá upp á síðkastið en refsiramminn þar er sex ár.

Verjandi mannsins, Bernt Heiberg, segir í samtali við NRK að skjólstæðingur hans viðurkenni ekkert af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök. Skjólstæðingurinn neiti með öllu að tjá sig um sakargiftirnar en málið hvíli þungt á honum enda sé það verulega íþyngjandi að sitja í gæsluvarðhaldi, sakaður um brot sem maður telji sig saklausan af, segir Heiberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert