Feðginin meðvitundarlaus á bekk

Feðginin liggja alvarlega veik á sjúkrahúsi í Salisbury.
Feðginin liggja alvarlega veik á sjúkrahúsi í Salisbury. AFP

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, segir að brugðist verði „kröftuglega“ við ef í ljós komi að ríki hafi verið að baki „óhugnanlegum“ veikindum gagnnjósnarans Sergei Skripal. 

Skripal, sem sagður er hafa veitt bresku leyniþjónustunni upplýsingar um rússneska leyniþjónustumenn, fannst meðvitundarlaus í Bretlandi um helgina. Lögregla rannsakar nú hvort eitrað hafi verið fyrir honum.

Johnson hefur staðfest að Skripal og dóttir hans Yulia hafi fundist meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury á sunnudag. „Ef sönnunargögn koma í ljós sem benda til þess að ákveðið ríki beri ábyrgð þá mun ríkisstjórn hennar hátignar svara með viðeigandi og kröftugum hætti,“ segir Johnson. Feðginin liggja nú á sjúkrahúsi og eru bæði sögð í lífshættu. Skripal er 66 ára og dóttir hans er á fertugsaldri. 

Johnson sagðist í umræðu um málið á þinginu í dag ekki vilja benda á einhvern sökudólg en tók fram að Rússland væri „illviljað sundrungarafl“. Rússnesk stjórnvöld hafna því að hafa átt þátt í veikindum feðginanna og enn á eftir að staðfesta hvers vegna þau voru í þessu ástandi sem þau fundust í.

Skripal er fyrrverandi rússneskur njósnari sem var dæmdur fyrir að njósna fyrir Breta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert