Öryggisráð bresku ríkisstjórnarinnar (Cobra) fylgist grannt með rannsókn lögreglu á því hvort fyrrverandi gagnnjósnara, Rússanum Sergei Skripal, og dóttur hans Juliu, hafi verið byrlað eitur. Þau eru bæði á gjörgæsludeild eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á bekk í Salisbury. Þau eru bæði í lífshættu að sögn breskra fjölmiðla.
Samkvæmt frétt BBC eru vísindamenn við rannsóknarstöð breska hersins í Porton Down að rannsaka hvort eitrað hafi verið fyrir þeim og ef svo er hvaða eitur hafi verið notað. Hryðjuverkadeild lögreglunnar í London hefur aukið viðbúnað í höfuðborginni.
Brú var lokað um tíma í gærkvöldi og tveimur veitingastöðum hefur verið lokað, Zizzi í Salisbury og The Bishop's Mill kráin.
Skripal, sem er 66 ára og Julia, sem er 33 ára, fundust meðvitundarlaus fyrir utan Maltings verslunarmiðstöðina síðdegis á sunnudag.
Innanríkisráðherra Bretlands, Amber Rudd, mun stýra starfi Cobra en meðal þess sem er rannsakað er hvort um þjóðaröryggisógn sé að ræða.
Scotland Yard tók yfir rannsóknina af lögreglunni í Wiltshire í gær og að sögn lögreglunnar er þetta ekki rannsakað sem hryðjuverk. Enn sé rannsóknin á byrjunarstigi og því ekki hægt að fullyrða neitt.
Vísindamönnum við Porton Down rannsóknarstöðina hefur ekki enn tekist að greina efnið sem talið er að hafa verið notað við að eitra fyrir þeim. Talið er að það geti tekið nokkra daga að finna út hvaða eiturefni er að ræða.
Tveir lögreglumenn sem komust í snertingu við efnið fengu aðhlynningu á sjúkrahúsi en þeir hafa verið útskrifaðir. Talið er að einkennin séu kláði í augum og öndunarerfiðleikar. Þriðji einstaklingurinn, sem er bráðaliði, er enn á sjúkrahúsi vegna einkenna sem hann er með eftir að hafa komið á vettvang og sinnt feðginunum.
Guardian hefur eftir vitnum sem segja að Julia Skripal hafi liðið útaf og að faðir hennar hafi horft upp í himininn. Töldu vegfarendur að þau væri einfaldlega undir áhrifum eiturlyfja.
Lögreglan fer nú yfir myndir í öryggismyndavélum á svæðinu. Þar sjást maður og kona, jafnvel Skripal-feðginin, koma gangandi saman skömmu fyrir klukkan 16 fram hjá líkamsræktarstöð. Skömmu síðar liðu þau bæði útaf. Starfsmaður á Mill kránni segir að þau hafi komið inn á krána síðdegis á sunnudag og fengið sér dykk. Þau hafi skemmt sér vel og farið saman út eftir að hafa lokið við drykkinn.
Skripal er kominn á eftirlaun en hann starfaði sem njósnari í rússneska hernum. Hann var dæmdur í 13 ára fangelsi í Rússlandi fyrir njósnir árið 2006 eftir að hafa verið dæmdur fyrir að veita bresku leyniþjónustunni, MI6, upplýsingar um rússneska njósnara sem störfuðu á laun í Evrópu.
Í júlí 2010 var hann einn fjögurra fanga sem voru látnir lausir af yfirvöldum í Moskvu í skiptum fyrir tíu rússneska njósnara sem voru handteknir af bandarísku alríkislögreglunni. Hann kom í kjölfarið til Bretlands þar sem hann settist að.