Taugagas notað á Skripal og dóttur hans

Lögreglumenn standa hér vörð utan við hús í Salisbury, sem …
Lögreglumenn standa hér vörð utan við hús í Salisbury, sem talið er tengjast lögreglurannsókn á árásinni á Skripal og dóttur hans. AFP

Taugagas var notað til að reyna að myrða fyrrverandi gagnnjósnarann Sergei Skripal og Juliu dóttur hans. Bresk lögregla greindi frá þessu nú síðdegis og er lögreglumaðurinn sem kom fyrstur á vettvang einnig sagður vera alvarlega veikur.

Hinn rússneski Skripal og dóttir hans eru bæði á gjörgæsludeild eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á bekk í verslunarmiðstöð í Salisbury á sunnudag. Scot­land Yard tók yfir rann­sókn­ina af lög­regl­unni í Wilts­hire í gær og sagði lög­regl­a þá málið ekki vera rann­sakað sem hryðju­verk.

Mark Rowley, sem fer fyrir hryðjuverkadeild lögrelgunnar, vildi ekki gefa upp í samtali við BBC hverskonar taugagas sé um að ræða, en sagði lögreglu telja um morðtilraun að ræða og nú þegar búið sé að staðfesta að taugagas hafi verið notað þá sé lögregla einnig þeirrar skoðunar að árásin hafi beinst sérstaklega gegn feðginunum.  

Ekkert bendi hins vegar til að öðrum stafi hætta af.

Einnig var þá greint frá því að tveir lög­reglu­menn sem komust í snert­ingu við efnið hafi fengið aðhlynn­ingu á sjúkra­húsi en að þeir hafa verið út­skrifaðir. Talið er að ein­kenn­in séu kláði í aug­um og önd­un­ar­erfiðleik­ar. Þriðji ein­stak­ling­ur­inn, sem er bráðaliði, er enn á sjúkra­húsi vegna ein­kenna sem hann er með eft­ir að hafa komið á vett­vang og sinnt feðgin­un­um.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hafði sagt að brugðist verði „kröftuglega“ við ef í ljós komi að ríki hafi verið að baki „óhugnanlegum“ veikindum Skripal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert