Byssulöggjöfinni var breytt á þingi Flórída í gærkvöldi og lágmarksaldur til þess að kaupa byssu hækkaður í 21 ár úr 18 árum. Jafnframt var ákveðið að setja fjárveitingu í verkefni sem miðar að því að heimila sumum kennurum og starfsfólki skóla að vopnast.
Lögin eru kennd við skólann í Parkland þar sem 17 manns, þar af 14 nemendur, voru drepnir í skotárás í framhaldsskóla bæjarins, Marjory Stoneman Douglas High School. Lögin eru nú komin til undirskriftar hjá ríkisstjóranum, Rick Scott. Hann hefur ekki gefið út hvort hann styðji lögin en Scott, sem er repúblikani, hefur áður lýst andstöðu sinni við hugmyndir forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, um að vopna kennara.