Boðað er til fjölmennra mótmæla í Slóvakíu í dag. Mikil ólga er meðal Slóvaka þessa dagana eftir að rannsóknarblaðamaðurinn Jan Kuciak var tekinn af lífi á heimili sínu í Bratislava ásamt unnustu sinni. Kuciak hafði verið að rannsaka spillingarmál sem tengdist Sósíal-demókrataflokknum og ítölsku mafíunni, en hann var drepinn áður en umfjöllunin fór til birtingar.
Lögreglan segir dauða Kubiak „mjög líklega“ tengjast umfjöllunarefni hans. Yfirvöld hafa handtekið fleiri Ítali úr viðskiptalífinu sem voru nafngreindir af Kuciak, en þeir voru látnir lausir vegna skorts á sönnunargögnum.
Forseti Slóvakíu, Andrej Kiska, hefur kallað eftir víðtækum breytingum á stjórnarháttum landsins og vill boða til kosninga. Robert Fico, forsætisráðherra landsins, sagði í kjölfar tilkynningar forsetans: „Reynt er að skapa óstöðugleika í landinu okkar.“ Gaf Fico einnig í skyn að Kiska væri í óeðlilegum samskiptum við George Soros.“
Tugir þúsunda hafa boðað þátttöku sína í mótmælunum í höfuðborginni Bratislava í dag. „Í dag er orðið ljóst að forsætisráðherrann Robert Fico og innanríkisráðherrann Robert Kalinak standa ekki fyrir þau gildi sem þúsundir Slóvaka gera og sem heimurinn stendur fyrir,“ segja skipuleggjendur mótmælanna.
Slóvakar búsettir á Íslandi hafa einnig boðað til mótmæla við Austurvöll í dag klukkan 17:00 til þess að sýna samlöndum sínum samstöðu.