Fara fram á dauðarefsingu yfir Cruz

Cruz hefur játað skotárásina en mun ekki játa fyrir dómi …
Cruz hefur játað skotárásina en mun ekki játa fyrir dómi ef krafist verður dauðarefsingar yfir honum. AFP

Saksóknarar munu fara fram á dauðarefsingu yfir Nikolas Cruz sem myrti 17 nemendur við framhaldsskóla í Flórída í síðasta mánuði. BBC greinir frá.

Cruz, sem er fyrrverandi nemandi við skólann, hefur játað árásina og er ákærður fyrir morðin 17 að yfirlögðu ráði. Skotárásin við skólann er sú mannskæðasta í bandarískum skóla frá árinu 2012 og í kjölfar hennar hafa umfangsmikil mótmæli brotist út þar sem þess er krafist að lög á skotvopnaeign verða hert.

Í dómsskjali sem þingfest var í dag kemur fram að saksóknarar í málinu ætli að fara fram á dauðarefsingu yfir Cruz. Þá vilja þeir sanna að árás Cruz hafi verið „svívirðileg, viðurstyggileg og grimm“.

Lögfræðingar Cruz segja að hann sé tilbúinn til að játa á sig morðin ef saksóknarar fari ekki fram á dauðarefsingu. Hann mun fallast á 34-falt lífstíðarfangelsi án möguleika á skilorði. „Við erum ekki að segja að hann sé saklaus en við getum ekki játað sök ef farið er fram á dauðarefsingu,“ segir Howard Finkelstein, einn af verjendum Cruz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert