Öll spjót standa á Pútín

Bresk stjórnvöld hafa í dag boðað til neyðarfundar um hina óskammfeilnu eiturefnaárás á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans, Yuliu. Þau segjast ekki sætta sig við slíkt tilræði á breskri grund og telja vísbendingar um að efnið sé frá Rússum komið. Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa tekið undir þær kenningar. Rússar krefjast þess að fá aðgang að sýnum sem notuð voru til að komast að þeirri niðurstöðu að um rússneskt taugaeitur hefði verið notað í árásinni.

Samband Rússa og Breta var stirt fyrir. Rússnesk stjórnvöld neita því að hafa komið að árásinni á feðginin í suðvesturhluta Englands þann 4. mars með nokkrum hætti. 

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði í þinginu í gær að það væri „mjög líklegt“ að rússnesk stjórnvöld stæðu að baki eitruninni og gaf þeim frest þar til síðdegis í dag til að svara ásökununum. Talið er að ef Bretar fari í aðgerðir gegn Rússum muni þeir kalla á bandamenn sína að sinni hlið. 

Styðja bresk stjórnvöld

Stjórnvöld í Bandaríkjunum sem og yfirstjórn NATO gáfu í gær út yfirlýsingar til stuðnings breskum stjórnvöldum. May sagði að í ljós hefði komið að efnið sem var notað til að eitra fyrir feðginunum væri taugaeitur sem væri þróað í Rússlandi fyrir herinn þar í landi. 

Skripal er 66 ára og dóttir hans 33 ára. Þau liggja enn milli heims og helju á sjúkrahúsi eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð í enska smábænum Salisbury.

Sérfræðingar í eiturefnabúningum hafa verið í Salisbury frá því að málið kom upp og 500 manns, sem gætu hafa komist í tæri við eitrið, hafa verið beðnir um að þvo föt sín og fylgihluti í varúðarskyni.

Taugaeitrið sem notað var er gríðarlega hættulegt. Sérfræðingar í eiturefnabúningum …
Taugaeitrið sem notað var er gríðarlega hættulegt. Sérfræðingar í eiturefnabúningum þurfa að rannsaka vettvanginn þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist hafa „fullt traust“ á rannsókn Breta á málinu og segir það „ofar sínum skilningi“ að ríki skuli nota svo hættulegt efni á almanna færi. 

„Við erum sammála því að þeir sem bera ábyrgð - bæði þeir sem frömdu glæpinn og þeir sem fyrirskipuðu hann - verði að draga til ábyrgðar og taka afleiðingum gjörða sinna,“ sagði hann við fréttamenn í gær. „Við sýnum bandamönnum okkar í Bretlandi samstöðu og munum samræma okkar aðgerðir.“

Þekktir fyrir að standa að launmorðum

May sagði breskum þingheimi í gær að rússnesk stjórnvöld hefðu áður notað þessa tegund taugaeiturs sem kallast novichok. Þá væru dæmi um að stjórnvöld stæðu að baki launmorðum á þeim sem flúið hefðu landið líkt og Skripal gerði. 

 „Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar að það sé mjög líklegt að Rússar séu ábyrgir fyrir tilræðinu gegn Sergei og Yuliu Skripal,“ sagði hún. 

Sagði ráðherrann að stjórnvöldum í Moskvu hefði verið gefinn frestur þar til síðdegis í dag, þriðjudag, að upplýsa Alþjóðlegu efnavopnastofnunina í smáatriðum um þróun novichok-taugaeitursins. 

Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.
Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.

Ef ekki myndi berast trúverðugt svar verði sú ályktun dregin að um ólögmæta valdbeitingu rússneska ríkisins gegn Bretlandi hafi verið að ræða. Hét hún því að útlista ítarleg viðbrögð vegna málsins á morgun, miðvikudag. 

Verður 5. greinin virkjuð?

Dagblaðið The Daily Telegraph segir að Bretar hafi ráðfært sig við bandamenn sína innan NATO um að virkja mögulega 5. grein varnarsamningsins, þ.e. að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildi árás á þau öll. 

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir bandalagið líta atvikið mjög alvarlegum augum. „NATO er í samskiptum við bresk yfirvöld vegna þessa máls,“ sagði í yfirlýsingu hans í gærkvöldi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti blés á kenningar um þátt sinn og stjórnvalda þar í landi í málinu. „Fáið ykkar mál á hreint og þá skulum við ræða þetta,“ sagði hann í svari sínu til blaðamanns BBC. 

Blóm við staðinn þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus í smábænum …
Blóm við staðinn þar sem feðginin fundust meðvitundarlaus í smábænum Salisbury. AFP

Rússnesk stjórnvöld höfnuðu svo í gær fullyrðingum May og kölluðu þær „skrípaleik“ og til þess gerðar að grafa undan trausti á Rússland í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu karla. Í dag sagði utanríkisráðherra Rússa, Sergei Lavrov, að hann krefðist þess að fá aðgang að sýnunum sem Bretar notuðu til að komast að þeirri niðurstöðu að um rússneskt taugaeitur hefði verið notað í árásinni. Þá ítrekaði hann þá afstöðu rússneskra stjórnvalda að þau hefðu hvergi komið nærri eiturefnaárásinni á feðginin.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti átti símafund með May í gær og sagðist standa með Bretum í málinu.

Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, mun leiða neyðarfund ríkisstjórnarinnar sem hefst klukkan 11.30 í dag að íslenskum tíma. Á fundinum verða veittar nýjustu upplýsingar um rannsókn málsins og stöðu þess almennt.

Gríðarlega hættulegt eitur

Skripal var hershöfðingi í leyniþjónustu rússneska hersins. Hann var handtekinn og dæmdur í fangelsi fyrir að veita Bretum trúnaðarupplýsingar. Hann var svo meðal gagnnjósnara sem skipt var á við vesturveldin árið 2010 og settist í kjölfarið að í smábænum Salisbury.

Theresa May forsætisráðherra var mjög harðorð í þinginu í gær. …
Theresa May forsætisráðherra var mjög harðorð í þinginu í gær. Hún ætlar að grípa til aðgerða gegn Rússum svari þeir ekki með trúverðugum hætti um þátt sinn í árásinni á feðginin. AFP

 Lögreglan í Bretlandi fer með rannsókn á tilræðinu í samvinnu við herinn þar í landi. 

Efnasérfræðingar segja að novichok, sem er flokkur yfir hundrað eiturefna, hafi verið þróað af Rússum í kalda stríðinu. Þeir segja eitrið hættulegra og háþróaðra en saríngas sem m.a. hefur verið notað í eiturefnahernaði í Sýrlandi. „Það hægir á hjartslætti og teppir öndunarveg og getur valdið köfnun,“ segir Gary Stephens, prófessor við Reading-háskóla.

Bretar lýstu áhyggjum sínum á því að Rússar byggju enn yfir slíkum efnavopnum á fundi fjölmargra ríkja í París árið 2008. 

Í frétt BBC í gær kom fram að talið sé að eitrinu hafi verið dælt inn um miðstöð bíls Skripals í duftformi.

Þá halda breskir fjölmiðlar því fram að þrýst sé á May að hætta við að senda lið Englands til keppni á heimmeistaramótinu í knattspyrnu karla sem fram á að fara í Rússlandi í sumar. „Hvernig getum við farið á heimsmeistaramót Pútíns núna,“ var m.a. spurt í fyrirsögn Daily Mail í morgun. 

Hermenn klæddir eiturefnabúningum taka þátt í rannsókninni á tilræðinu gegn …
Hermenn klæddir eiturefnabúningum taka þátt í rannsókninni á tilræðinu gegn feðginunum í Salisbury. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert