Eitur sett í regnhlíf, te og þjóðarrétt

Ekkja rússneska njósnarans Litvinenko vildi að sett yrðu viðskiptabönn á …
Ekkja rússneska njósnarans Litvinenko vildi að sett yrðu viðskiptabönn á Rússa í kjölfar morðsins. Gríðarlega mikið var fjallað um morðið í fjölmiðlum um allan heim.

Morðtilræðið á Skripal-feðginunum í Bretlandi er langt í frá fyrsta eiturbyrlunin sem talin er runnin undan rifjum rússneskra stjórnvalda þar í landi. Dæmin eru raunar fjölmörg og flest álíka óhugnanleg og árásin á Sergei og Yuliu Skripal í smábænum Salisbury á Englandi. Þau eru enn í lífshættu og alls óvíst að þau muni nokkru sinni komast til meðvitundar. Taugaeitrið sem notað var til verksins lamar öndunarfæri og miðtaugakerfið allt. Engin lækning er vís. 

Samkvæmt því sem bresk stjórnvöld fullyrða var feðginunum byrlað eitur sem þróað var og framleitt í Rússlandi á kalda stríðsárunum. Ein þeirra spurninga sem hafa vaknað er hvernig efnið komst til Bretlands. 

Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006.
Sergei Skripal í réttarsalnum í Moskvu árið 2006. AFP

Ef til stóð að myrða feðginin hefði verið hægt að beita öðrum aðferðum. En sá sem stóð að baki tilræðinu valdi rússneska taugaeitrið novichok og þá í þeim tilgangi að vekja umtal og ótta. Þeir sem beittu því vissu að slóðin yrði rakin til Rússlands. Og stóra spurningin er því hvort að rússnesk stjórnvöld hafi gert það og talið að aldrei yrði hægt að sanna bein tengsl þeirra við málið frekar en fyrri daginn eða hvort einhver gerði það til að vekja tortryggni í garð Rússa.

„Þetta er mjög ljót aðferð,“ segir einn fyrrverandi leyniþjónustumaður Rússa í samtali við Guardian. „Henni fylgir hætta á að skaða annað fólk sem flækir málið enn frekar. „Til eru mun nákvæmari aðferðir sem fagmenn í þessum bransa beita.“

Forsetakosningar á næsta leiti

Fréttaskýrendur telja að tímasetning tilræðisins sé engin tilviljun, hver svo sem standi að baki því. Forsetakosningar fara fram í Rússlandi á næstunni. Pútín hefur ekkert að óttast, hann mun ná kjöri. Umræðan um árásina á Skripal mun engu breyta þar um. Hans stuðningsmenn munu líklegast fylkja sér enn þéttar að baki honum vegna málsins. Skilaboðin með tilræðinu gætu nefnilega verið þau að stilla honum upp sem fórnarlambi enn einnar samsæriskenningar Vesturlanda. 

Samsétt ljósmynd sem sýnir mannréttindafrömuðinn Natalia Estemirova, auðjöfurinn Boris Berezovsky, …
Samsétt ljósmynd sem sýnir mannréttindafrömuðinn Natalia Estemirova, auðjöfurinn Boris Berezovsky, Sergei Yushenkov, njósnarann Alexander Litvinenko, Boris Nemtsov, mannréttindalögfræðinginn Stanislav Markelov, rússneski lögfræðinginn Sergei Magnitsky, blaðamennina Anastasiya Baburova og Anna Politkovskaya. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa verið andstæðingar rússneskra yfirvalda og að hafa látist með vofeiflegum hætti. AFP

Fyrrverandi ráðgjafi utanríkisráðuneytis Bretlands segir í samtali við Guardian að ólíklegt sé að njósnastörf Skripal fyrir bresku leyniþjónustuna við upphaf aldarinnar sé ástæðan fyrir því að á hann var ráðist. Hann hafi aðeins verið verkfæri. Hið raunverulega skotmark hafi verið Bretland. Tilræðið hafi verið framið til að róta í hinu pólitíska landslagi.

Enn ein kenningin hefur svo verið sett fram: Að Pútín hafi einmitt viljað fá þau viðbrögð frá Theresu May forsætisráðherra sem hún hefur nú gripið til, þ.e. að vísa rússneskum erindrekum og öðrum Rússum úr landi. Helst þeim ríku. Að síðustu verður að nefna þá kenningu að rússnesk stjórnvöld hafi gripið til þessa ráðs til að hræða aðra leyniþjónustumenn sína og aðra sem búa yfir trúnaðarupplýsingum. Viðvörunin er þessi: Ríkið getur refsað á grimmilegan hátt. Sjáið bara hvernig fór fyrir Skripal.

Það er ekki úr lausu lofti gripið að saka Rússa um aðild að eitruninni. Fyrir utan uppruna eitursins sem notað var hafa mörg mál komið upp þar sem grunur er um að Rússar hafi fyrirskipað launmorð á erlendri grundu. Nær ómögulegt er hins vegar að sanna tengslin með óyggjandi hætti.

Georgi Markov. September árið 1978.

Í miðju kalda stríðinu var eitrað fyrir búlgarska andófsmanninum Georgi Markov með sérhannaðri regnhlíf á Waterloo-brúnni. Markov stóð og beið eftir strætisvagni er hann fann einhverju stungið fast inn í fótlegg sinn. Markov var yfirlýstur andstæðingur kommúnistastjórnarinnar í Búlgaríu. Hann lést þremur dögum eftir árásina. Morðinginn fannst aldrei en talið er að búlgarska leyniþjónustan hafi skipulagt morðið með aðstoð KGB, leyniþjónustu Rússlands. 

Rithöfundurinn Georgi Markov.
Rithöfundurinn Georgi Markov.

Alexander Litvinenko. Nóvember árið 2006.

Eitrað var fyrir fyrrverandi leyniþjónustumanninum Alexander Litvinenko í London. Til verksins var notað geislavirkt eitur sem sett var út í te sem hann drakk. Í kjölfarið veiktist hann og lést. Morðingja sína, Andrei Lugovoi, fyrrverandi KGB-liðsmann, og Dimitrí Kovtun, hafði hann hitt á Millennium-hótelinu í Mayfair. Vladimír Pútín neitaði aðild að drápinu og hafnaði framsalsbeiðni á morðingjunum. Lugovoi er nú náinn samstarfsmaður Pútíns.

German Gorbuntsov. Mars árið 2012.

Rússneski bankamaðurinn German Gorbuntsov var skotinn fjórum sinnum er hann steig út úr leigubíl í austurhluta London. Hann hafði þátt um hríð átt í illdeilum við tvo fyrrverandi viðskiptafélaga sína. Hann lifði árásina af.

Alexander Perepilichnyy. Nóvember 2012.

Viðskiptamaðurinn Perepilichnyy missti meðvitund er hann var úti að hlaupa í nágrenni heimabæjar síns, Surrey. Í maga hans fundust leifar af eitri sem unnið er úr eiturplöntu. Talið er líklegt að eitrið hafi verið sett út í rússneskan rétt hann borðaði skömmu áður. Áður en hann lést var hann að aðstoða fjárfestingafélag að svipta hulunni af umfangsmiklu rússnesku peningaþvætti. Eftir dauða hans sögðu stjórnendur félagsins að þau teldu morðið tengjast því að rússneskir embættismenn áttu þátt í peningaþvættinu.

Boris Berezovskí. Mars árið 2013.

Milljarðamæringurinn Boris Berezovskí fannst hengdur og var í fyrstu talið að um sjálfsvíg væri að ræða. Hann hafði þá um árabil átt í útistöðum í fjölmiðlum við fyrrverandi samstarfsmann sinn, Vladimír Pútín. Réttarmeinafræðingur sem framkvæmdi krufningu á líki hans sagðist ekki geta útilokað að hann hafi verið ráðinn af dögum.

Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að …
Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að koma í ljós. mbl.is

Scot Young. Desember árið 2014.

Aðstoðarmaður Berezovskís, Scot Young, fannst stjaksettur á handriði eftir að hafa fallið fram af fjórðu hæð í íbúð í London. Réttarmeinafræðingur sagði ekki hægt að fullyrða að um sjálfsvíg hefði verið að ræða eins og vinur hélt fram.

Rússneskir blaðamenn sem samtök um vernd blaðamanna, CPJ, vöktu athygli …
Rússneskir blaðamenn sem samtök um vernd blaðamanna, CPJ, vöktu athygli á að hefðu verið drepnir í skýrslu sem kom út árið 2009 (Efri röð frá vinstri): Paul Klebnikov, Natalya Skryl, Magomed Yevloyev, Pavel Makeev, Magomedzagid Varisov, Anastasiya Baburova, Aleksei Sidorov, og Valery Ivanov.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert