Fóstureyðingar eru bannaðar með lögum í El Salvador og skipta kringumstæður engu. Maira Verónica Figueroa Marroquín er 34 ára gömul. Í gær var hún látin laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í 15 ár fyrir að hafa farið í fóstureyðingu.
Figueroa var dæmd í 30 ára fangelsi fyrir morð árið 2003 en hún hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Að sögn Figueroa fæddi hún andvana barn á heimilinu sem hún starfaði sem þjónustustúlka árið 2003. Farið var með hana á sjúkrahús, hún handtekin og síðan dæmd fyrir að hafa farið í fóstureyðingu.
Foreldrar hennar, blaðamenn og aðgerðarsinnar biðu fyrir utan fangelsið í Ilopango, skammt fyrir utan höfuðborgina, San Salvador, þegar hún var látin laus í gær og fögnuðu með henni en hæstiréttur stytti dóminn yfir henni nýverið. Hún er önnur konan sem hæstiréttur styttir dóm yfir vegna fóstureyðingar á þessu ári í El Salvador.
BBC hefur eftir henni að hún ætli sér að hefja nýtt líf og vinna upp það sem hún missti af.
El Salvador er eitt fárra landa í heiminum þar sem fóstureyðingar eru ólöglegar sama hverjar kringumstæðurnar eru og liggja þungar refsingar við brotinu. Ef kona verður uppvís af því að hafa farið í fóstureyðingu á hún yfir höfði sér 8 ára fangelsi og hægt er að þyngja refsinguna upp í 30 ára fangelsi.
Læknar sem telja að konur hafi reynt að binda endi á þungun er gert að tilkynna það til yfirvalda. Að öðrum kosti eiga þeir yfir höfði sér langa fangelsisdóma.
Mannúðarsamtök hafa bent á að þetta geri það að verkum að fósturlát eru talin saknæm og oft koma upp neyðartilvik þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar við skelfilegar aðstæður.