Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, tilkynnti í dag að hann hefði í hyggju að segja upp aðild landsins að Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag í Hollandi. Dómstóllinn hefur verið að rannsaka fíkniefnastríð forsetans sem staðið hefur yfir frá því að hann var kjörinn.
Fram kemur í yfirlýsingu Dutertes að Filippseyjar segi upp aðild sinni sem taki þegar gildi. Alþjóðaglæpadómstóllinn tilkynnti í síðasta mánuði að hann hefði hafið rannsókn á fíkniefnastríði Dutertes sem kostað hefur fjölda lífa og verið harðlega gagnrýnt á alþjóðavettvangi.
Lögreglan segist hafa drepið tæplega 4000 manns sem grunaðir hafi verið um fíkniefnaglæpi en mannréttindasamtök telja að talan sé þrisvar sinnum hærri.