Andrej Kiska, forseti Slóvakíu, hefur falið Peter Pellegrini, aðstoðarforsætisráðherra landsins, að mynda nýja ríkisstjórn.
Kiska féllst á afsagnarbeiðni Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, í dag, en Fico hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að rannsóknarblaðamaðurinn Jan Kuciak var tekinn af lífi á heimili sínu í Bratislava ásamt unnustu sinni í lok febrúar. Fico bauðst til að segja af sér í gær.
Frétt mbl.is: Býðst til að segja af sér í kjölfar mótmæla
„Eina ástæðan fyrir afsögn minni er til að koma í veg fyrir ringulreið í landinu og til að tryggja stöðugleika. Kosningar hefðu ekki tryggt stöðugleika,“ sagði Fico þegar hann baðst lausnar á fundi forsetans í dag.
Tugþúsundir Slóvaka hafa mótmælt aðkomu stjórnvalda að málinu en Kuciak var að rannsaka spillingu í stjórnkerfi landsins þegar hann var myrtur. Kuciak var að skrifa grein um tengsl ráðgjafa forsætisráðherrans við ítölsku mafíuna. Greinin birtist að honum látnum.