„Það er eiginlega talið öruggt að Pútín hljóti endurkjör. Spurningin er með hve miklum meirihluta og hver kosningaþátttakan verður.“ Þetta segir stjórnmálafræðingurinn og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi, Albert Jónsson, en á morgun fara fram forsetakosningar í Rússlandi.
Í síðustu forsetakosningum, sem fram fóru 2012, hlaut Pútín tæplega 64% atkvæða, en kosningaþátttakan var um 65%. Einn helsti andstæðingur Pútíns, Alexei Navalny, hefur hvatt landa sína til þess að sniðganga kosningarnar. Honum var meinað að bjóða sig fram í kosningunum vegna fimm ára skilorðsbundins fangelsisdóms sem hann hlaut vegna fjármálamisferlis.
„Ég er viss um það að Pútín og stjórnvöldum er annt um það að þátttaka verði sem mest og þeir eru viðkvæmir fyrir þessu. Það á eftir að koma í ljós að hve miklu leyti þetta tekst. Navalny er vinsæll, en hann er það fyrst og fremst í Moskvu og að hluta til í Pétursborg,“ segir Albert, en hann telur ekki að Navalny muni hafa afgerandi áhrif á kosningaþátttöku.
Hann segir kosningarnar sérstakar að mörgu leyti og að mikið vanti upp á til þess að hægt sé að kalla þær lýðræðislegar. „Stjórnvöld hafa algjörlega tök á umræðunni og fjölmiðlum í landinu. Flestir Rússar tala bara rússnesku og fá allar sínar upplýsingar frá ríkissjónvarpsstöðvunum. Svo eru ýmsar hindranir í vegi fyrir þeim sem vilja bjóða sig fram. Stjórnarandstæðingar komast ekki mikið að á ríkissjónvarpsstöðvunum.“
„Á undanförnum árum er búið að setja ýmislegt í lög sem hræðir fólk frá því að taka þátt í mótmælum og slíku. Það verður líka að skoða vinsældir Pútíns í ljósi þess að hann er búinn að vera að í átján ár og hefur búið til þessa ímynd af sjálfum sér með stjórn á umræðu og mikil ítök í fréttaflutningi,“ segir Albert.
Hann segir hina frambjóðendurna sjö ekki eiga möguleika í kosningum morgundagsins. „Sumir halda því fram það þeir séu í rauninni bara handbendi stjórnvalda. T.d. er sagt að Ksenia Sobchak sé höfð þarna á sviðinu bara til þess að láta líta út fyrir að það sé einhver kosningabarátta í gangi.“
Að mörgu leyti segir Albert Pútín standa fyrir stöðugleika, og að minningin um 10. áratuginn þegar Jeltsín var við völd eftir hrun Sovíetríkjanna hjálpi honum mikið. Það hafi verið tímar óstjórnar, vondra lífskjara og lögleysu.
Hann segir Pútín einnig hafa staðið ákveðið fyrir því að Rússland sé stórveldi og að um það ríki mikil samstaða í landinu. Vinsældir Pútíns hafi rokið upp að nýju eftir innlimun Krímskaga, og að almenningur í landinu styðji einnig ítök Rússlands í Sýrlandsstríðinu, enda sé það angi þess að Rússlandi líti á sig sem stórveldi í heiminum.
Hvað Skripal-njósnamálið varðar segir Albert líklegt að það sé dregið upp sem enn ein atlagan að Pútín, Rússum og Rússlandi. „Hann er táknmynd þessarar mótstöðu gegn óvinveittum ytri öflum. Það er mikið kynt undir því í Rússlandi af hálfu rússneskra stjórnvalda að það séu öfl, fyrst og fremst utanlands, en einnig innanlands, sem hafi að markmiði að sá fræjum óstöðugleika í Rússlandi.“