Hataðasti tölvuþrjótur í heimi, Adrian Lamo, sem tilkynnti Chelsea Manning til yfirvalda í Bandaríkjunum, er látinn aðeins 37 ára að aldri. The Guardian greinir frá.
Bandaríski uppljóstrarinn Chelsea Manning lak trúnaðargögnum um hernað Bandaríkjamanna til Wikileaks og var dæmd til 35 ára fangelsisvistar. Barack Obama mildaði hins vegar dóm Manning áður en hann lét af embætti, og losnaði hún úr fangelsi í maí á síðasta ári.
Yfirvöld í Kansas staðfestu dauða Lamo á föstudag en hafa ekkert gefið út um dánarorsök hans.
Adrian Lamo, hacker who reported Chelsea Manning to FBI, dies aged 37 https://t.co/mzfRgAKTAX pic.twitter.com/lUDPmOyxko
— RT (@RT_com) March 16, 2018
Lamo kynntist Manning á internetinu árið 2010 og tilkynnti hana til yfirvalda. Manning hafði haft samband við Lamo eftir að hafa lesið grein um tölvuþrjótinn, sem árið 2004 var dæmdur fyrir að brjótast inn í tölvukerfi New York Times, Yahoo og Microsoft.
Lamo er stundum kallaður hataðasti tölvuþrjótur í heimi, en í viðtali frá 2013 sagði hann að hann hafi sæst við ákvörðun sína og haldið áfram með líf sitt.
Manning tilkynnti fyrr á árinu að hún ætlaði í framboð til öldungadeildar bandaríska þingsins. Hún kom út sem transkona á meðan hún sat í fangelsi og hefur verið talskona mannréttinda transfólks síðan.