Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði í morgun að hún myndi segja af sér embætti forsætisráðherra verði vantrauststillagan gegn hinum umdeilda ráðherra dóms- og innflytjendamála, Sylvi Listhaug, samþykkt í því sem norskir fjölmiðlar kalla nú „Facebook-gate“ í höfuðið á Watergate-máli Richard Nixon Bandaríkjaforseta á áttunda áratugnum.
Það er norska dagblaðið VG sem hefur ummæli Solberg eftir „heimildarmanni í innsta hring ríkisstjórnarsamstarfsins“ nú í morgun.
Verði þetta að veruleika eigi þeir flokkar, sem veita vantraustinu brautargengi, það verkefni yfir höfði sér að mynda nýja stjórn, hefur blaðið einnig eftir henni.
Þar sem Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Græningjar hafa lýst því yfir að á þeim bæjum verði greidd atkvæði með vantrauststillögunni standa nú öll spjót á Knut Arild Hareide og félögum í Kristilega þjóðarflokknum sem enn veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Miðstjórn flokksins hefur boðað til símafundar sín á milli á morgun en eftir hann mun þingflokkurinn ræða saman og taka endanlega ákvörðun fyrir stóru stundina á þriðjudag.
Í anda síns flokks hefur Hareide ítrekað reynt að bjóða fram hinn vangann í málinu þótt ekki sé beinlínis um hans vanga að ræða en í gær sagði hann við dagblaðið Aftenposten að það „myndi hjálpa ef Sylvi Listhaug væri flutt til annars ráðuneytis“ áður en kristilegir taka sína ákvörðun á morgun.
Hans Andreas Limi, þingflokksformaður Framfaraflokksins, flokks Sylvi Listhaug á norska Stórþinginu, þvertók hins vegar fyrir slíkar hrókeringar í ívitnaðri frétt Aftenposten.
Hareide er ekki maður stóryrtur og styður helst málamiðlanir. Hann hefur forðast að segja af eða á um vantraustið en samflokksmaður hans, Svein Iversen, oddviti flokksins í Finnmörku, sagði við Dagbladet að hann segði nei við Listhaug en já við Solberg. „Ég er ekki á höttunum eftir stjórnarkreppu,“ lét Iversen enn fremur hafa eftir sér.
Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með málinu frá byrjun snýst það um Facebook-pistil Sylvi Listhaug frá 9. mars sem vakti miklar viðsjár innan Verkamannaflokksins en Listhaug ritaði þar að Verkamannaflokkurinn setti réttindi hryðjuverkamanna ofar þjóðaröryggi. Hún hefur síðan beðist afsökunar í ræðu í þinginu en breytti þeirri ræðu reyndar lítillega frá því sem um var samið og strauk þar með Verkamannaflokknum enn á ný andhæris.
Hér má lesa samantekt norska ríkisútvarpsins NRK, Sjö spurningar og svör um Listhaug-lætin.