Afneitun rússneskra stjórnvalda á aðkomu sinni að taugaeitursárásinni á gagnnjósnarann fyrrverandi Sergei Skripal og dóttur hans verður sífellt fáránlegri að sögn Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
„Afneitun Rússa verður sífellt fáránlegri,“ sagði Johnson er hann kom til fundar við utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja í Brussel í morgun. „Þetta er dæmigerð rússnesk aðferð við að reyna að fela nál sannleikans í heystakki lyga og flækja.“
Bresk stjórnvöld telja þau rússnesku hafa staðið að baki árásinni og hafa jafnvel gengið svo langt að segja að Vladimír Pútín forseti hafi fyrirskipað hana. Rannsóknir á sýnum af eiturefninu sem beitt var í árásinni á feðginin hafa leitt í ljós að um er að ræða taugaeitur sem var þróað og framleitt í Rússlandi.
Pútín segir hins vegar að slíkum eiturefnum hafi verið eytt. Hann neitar aðild að tilræðinu en segir Rússa tilbúna að aðstoða við rannsókn málsins.