Eiturlyfjasalar fái dauðarefsingu

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að eiturlyfjasalar eigi yfir höfði sér dauðarefsingu. Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti í ríkinu New Hampshire í tilefni af áætlun sinni um að stemma stigu við þeim fjölda dauðsfalla sem hefur orðið vegna misnotkunar á sterkum verkjalyfjum í landinu, að því er BBC greindi frá.

Mörg dauðsföll hafa einmitt orðið í New Hampshire af þessum völdum.

Forsetinn sagði einnig mikilvægt að koma í veg fyrir að lyfjunum verði útdeilt eins mikið af læknum og verið hefur, auk þess sem efla þurfi meðferðarúrræði.

63.600 manns létust árið 2016 af völdum sterkra verkjalyfja, að sögn heilbrigðisyfirvalda.  

„Við erum að sóa tíma okkar ef við herðum ekki aðgerðir okkar gegn eiturlyfjasölunum,“ sagði Trump. „Dauðarefsing er hluti af þessari hörku.“

Talið er að um 2,4 milljónir Bandaríkjamanna séu háðar sterkum verkjalyfjum. Lyfseðilsskyld verkjalyf og heróín eru þar á meðal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert