Úkraínski herflugmaðurinn, sem Rússar kenndu um að hafa hafa grandað MH17, farþegaþotu Malaysian Arlines-flugfélagsins, yfir Úkraínu árið 2014, er látinn. Úkraínskir fjölmiðlar segja hann hafa tekið eigið líf.
Úkraínskir fjölmiðlar greindu frá þessu í dag, en flugmaðurinn og höfuðsmaðurinn Vladyslav Voloshyn hafði alla tíð sagt ásakanir rússneskra yfirvalda vera lygi að því er BBC greinir frá. Hollenska samgönguslysanefndin komst líka að þeirri niðurstöðu, flugskeytið hafi verið rússneskt og því hafi verið skotið upp frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Úkraínu.
Úkraínumenn lýstu Voloshyn sem stríðshetju, en hann hafði farið í 33 árásarferðir gegn uppreisnarmönnum í austurhluta Úkraínu og hafði hlotið orðu fyrir hugprýði. Hann var 29 ára er hann lést.
Undanfarið hafði Voloshyn haft yfirumsjón með flugvellinum í borginni Mykolaiv í Úkraínu eftir að hann hætti í hernum. Hann hafði að sögn fjölskyldu sinnar þjáðst af þunglyndi.
Í yfirlýsingu, sem lögreglan í Mykolaiv birti á Facebook-síðu sinni, er láti Voloshyn lýst sem sjálfsvígi, en að það sé engu að síður rannsakað sem mögulegt morð. Skotvopn frá hernum fannst á vettvangi og er það nú til rannsóknar hjá tæknideild.
MH17, farþegaþotan, var skotin niður yfir átakasvæði í austurhluta Úkraínu, með 298 farþega og áhöfn innanborðs. Flestir farþeganna vor hollenskir en vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.
Fjöldi alþjóðlegra flugfélaga hélt áfram að fljúga sína hefðbundnu flugleið yfir svæðið eftir að átök hófust þar og töldu flugleiðina örugga þó að uppreisnarmenn hefðu skotið niður nokkrar úkraínskar þotur.
Rússnesk yfirvöld fullyrtu ekki bara að það hefði verið flugvél Voloshyn sem skaut farþegaþotuna niður, heldur sögðu þau einnig að flaugin sem notuð var hefði verið úkraínsk.
Alþjóðasérfræðingar og hollenska samgönguslysanefndin hafnaði hins vegar fullyrðingum Rússa og sagði sannanirnar benda til þess að uppreisnarmenn eða rússnesk hersveit hefðu sent hina rússnesku flaug á loft.