Leigubílaþjónustan Uber hefur stöðvað sjálfkeyrslu-verkefni sitt eftir að einn af bílum hennar ók á gangandi vegfaranda í bandaríska ríkinu Arizona með þeim afleiðingum að hann lést.
Bíll Uber var í sjálfskeyrslu en með ökumann við stýrið þegar hann ók á konu sem var að ganga yfir götu í borginni Tempe seint á sunnudag.
Hún lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.
„Við samhryggjumst fjölskyldu fórnarlambsins,“ sagði talsmaður Uber.
Ákveðið hefur verið hætta tilraunum með notkun sjálfkeyrandi bíla fyrirtækisins í borgunum Tempe, Pittsburgh, Toronto og San Francisco.
Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfkeyrandi bíll keyrir á gangandi vegfaranda með þeim afleiðingum að hann lætur lífið.