Yfirvöld í Simbabve neyddust til að drepa krókódíl sem hafði komið sér fyrir við inngang að sjúkrahúsi í bænum Hwange. Mikil skelfing greip um sig því fólk komst hvorki inn né út af sjúkrahúsinu því dýrið reyndi að éta gesti og gangandi.
Í fyrstu taldi lögreglan að um hrekk væri að ræða þegar hún fékk fjölmargar tilkynningar um krókódílinn. Ástæðan er sú að það er ákaflega sjaldgæft að krókódílar leggi leið sína jafn langt inn land og raun bar vitni. Hins vegar hefur verið ákaflega mikil rigning á svæðinu og fjölmargir krókódílar fært sig innar í landið og ráðist á fólk.
Í borginni Harare lést kona þegar hún gekk yfir á og krókódíll réðist á hana, þá komst drengur lífs af þegar krókódíll glefsaði í hann í suðausturhluta Chiredzi.