Á myndbandi úr myndavél í mælaborði sjálfkeyrandi Uber-bílsins sem ók á vegfaranda í Arizona á sunnudag má sjá starfsmann Uber, sem sat undir stýri, taka andköf af skelfingu rétt áður en banaslysið varð.
Bíllinn var stilltur á sjálfstýringu en í honum var þó starfsmaður frá Uber. Á myndbandinu sést að „bílstjórinn“ horfir niður fyrir sig í um fimm sekúndur áður en hann lítur upp og sér þá í hvað stefnir.
Bíllinn ók á gangandi vegfaranda í Tempe í Arizona sem lést við áreksturinn.
Konan sem varð fyrir bílnum var að reiða hjólið sitt yfir götuna. Það var myrkur er slysið átti sér stað og lítil lýsing á veginum.
Uber tilkynnti á mánudag að fyrirtækið hefði frestað tímabundið frekari tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í Tempe, Pittsburgh, Toronto og San Francisco.