Mótmælendur í Sacramento í Kaliforníu lokuðu í gær hraðbraut og körfuboltaleikvangi í borginni vegna nýlegs atviks þar sem lögreglumenn skutu óvopnaðan þeldökkan mann til bana. Mótmælendur byrjuðu á því að ganga að ráðhúsi borgarinnar með mótmælaskilti og hvöttu til aðgerða gegn ofbeldi lögreglu í garð þeldökkra einstaklinga. BBC greinir frá.
Það voru samtökin Black lives matter sem skipulögðu mótmælin eftir að myndband sem sýnir lögreglumenn skjóta 20 sinnum á hinn 22 ára Stephon Clark var gert opinbert. Lögregla hafði verið kölluð út vegna innbrota á heimili og í bíla í hverfinu. Clark var úti í garði hjá ömmu sinni og afa þegar lögregla hrópaði í áttina að honum „byssa, byssa, byssa“ áður en þeir hófu skothríð. Hvor lögreglumaður skaut tíu skotum. Í ljós kom hins vegar að Clark var óvopnaður, en var með síma í hendinni sem lögregla taldi vera byssu.
Mótmælendur stóðu á götum úti og hrópuðu „ekki skjóta, þetta er sími“. Miklar umferðartafir urðu vegna mótmælanna, en mótmælendur færðu sig svo að Golden 1 Center leikvanginum þar sem Sacramento Kings áttu að spila við Atlanta Hawks klukkan 19 að staðartíma. Þeir hindruðu gesti í að komast inn á leikvanginn og aðeins 2.000 áhorfendur af um 17.000 náðu að komast í sæti áður en leikurinn hófst.
Lögregla var kölluð til en mótmælin voru friðsamleg og enginn var handtekinn. Fjölmargir sem áttu miða á leikinn sýndu mótmælendum stuðning á meðan aðrir voru reiðir yfir þessari truflun.