„Hann veit að ég er að segja satt“

Samsett mynd sem sýnir Stormy Daniels og Donald Trump. Hún …
Samsett mynd sem sýnir Stormy Daniels og Donald Trump. Hún segir að þau hafi sængað saman árið 2006 en árið 2011 hafi maður hótað henni ef hún myndi reyna að selja sögu sína. AFP

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels segir í samtali við Anderson Cooper í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes að henni hafi verið hótað ofbeldi myndi hún segja opinberlega frá meintu framhjáhaldi hennar með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. 

Margir hafa beðið með eftirvæntingu eftir þættinum sem var sýndur í kvöld. 

Daniels, sem sækist eftir því að losna undan samkomulagi sem hún undirritaði þar sem kveðið er á um að hún tjái sig ekkert um málið, sagði jafnframt í viðtalinu, að hún hefði stundað óvarið kynlíf með Trump, sem giftist Melaniu Trump árið 2005. Þetta hafi gerst einu sinni árið 2006. Hún sagði enn fremur að maður hefði hótað henni þegar hún var stödd á bílastæði í Las Vegas árið 2011, þegar hún hugðist selja söguna. 

Hún segist hafa verið með barnungri dóttur sinni þegar maðurinn gekk upp að henni og sagði: „Láttu Trump í friði. Gleymdu sögunni.“ Hún bætir við að maðurinn hafi litið á dóttur hennar og sagt: „Þetta er falleg lítil stúlka. Það væri synd og skömm ef eitthvað kæmi fyrir mömmu hennar.“

Daniels segist hafa orðið afar óttaslegin og óttast að hún myndi missa barnið. 

Þá greindi hún frá því, að hún hefði haldið sambandi við Trump því „ég leit á það sem viðskipti“. Hún segir að Trump hafi tjáð henni að hann myndi reyna að koma henni í raunveruleikaþáttinn The Apprentice sem Trump stýrði. 

Daniels útskýrði í viðtalinu, að ástæðan fyrir því að hún stigi nú fram til að segja sína sögu væri að hún liti ekki á sjálfa sig sem fórnarlamb eða hluta af #metoo-byltingunni. Hún hafi einfaldlega viljað koma sannleikanum á framfæri. 

„Ég er ekki sátt við það ef einhver heldur því fram að ég sé lygari,“ hélt hún fram.

Cooper spurði hana enn fremur að því hvað hún myndi vilja segja við Trump ef hann væri að horfa á þáttinn. Svar Daniels var afdráttarlaust: „Hann veit að ég er að segja satt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert