Bróðir Stephon Clark, óvopnaðs þeldökks manns sem skotinn var tuttugu skotum af lögreglu í Sacramento í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum ruddist inn á fund borgaryfirvalda þar sem fjallað var um málið í gær. BBC greinir frá.
Bróðirinn leiddi hóp mótmælenda inn á fundinn, settist á borð og sagði að borgarstjórinn og borgin hefði brugðist þeim öllum. Atvikið átti sér stað á meðan umræða um dauða Clark fór fram.
Stephon Clark, sem var 22 ára, var úti í garði hjá ömmu sinni og afa borginni Sacramento þegar lögreglumenn, sem kallaðir höfðu verið út vegna innbrots í hús og bíla í nágrenninu, hrópuðu „byssa, byssa, byssa“ í átt til hans og hófu skothríð. Lögreglumennirnir voru tveir og skutu tíu skotum hvor.
Í ljós kom að Clark var óvopnaður og hafði haldið á síma sem lögregluþjónarnir mistóku fyrir skotvopn. Samtökin Black Lives Matter stóðu fyrir fjölmennum mótmælum í borginni skömmu eftir atvikið.
Hundruð manna voru saman komnir á fundinum, sem boðað var til eftir að tilkynnt var að ríkissaksóknari Kaliforníu myndi taka þátt í rannsókn málsins. Áður en fundurinn var truflaður hafði borgarstjóri Sacramento, Darrell Steinberg, sagt að ræða ætti þjálfun og verklagsreglur lögreglu.