Ólík skilaboð forsetanna tveggja

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðhæfði í kvöld að herlið Bandaríkjamanna myndi „mjög bráðlega“ hörfa frá Sýrlandi. Sagðist hann harma það sem hann sagði vera sjö milljarða dala sóun stjórnvalda í Washington í stríð í Mið-Austurlöndum.

Í ræðu sem hann hélt fyrir verkafólk í iðnaði í Ohio sagði hann herliðið vera nálægt því að tryggja sér allt það landsvæði sem hryðjuverkasamtökin Ríki Íslams höfðu áður gert kall til.

„Við eigum eftir að fara frá Sýrlandi mjög bráðlega. Leyfum hinu fólkinu að sjá um þetta núna,“ sagði hann og uppskar lófaklapp. Hann tók þó ekki fram hvert „hitt fólkið“ væri, en Rússar og Íranar eru þegar með þó nokkurn herafla í landinu sem beitt hefur verið til stuðnings stjórn Bashar al-Assad.

„Við munum fara aftur til lands okkar, þar sem við eigum heima, þar sem við viljum vera,“ sagði Trump.

Sýrlensk leyniskytta, studd af Tyrkjum, bíður færis í Afrín.
Sýrlensk leyniskytta, studd af Tyrkjum, bíður færis í Afrín. AFP

Hægt verði að koma á viðræðum

Á sama tíma í Frakklandi fundaði Emmanuel Macron forseti með fulltrúum Kúrda og Sýrlendinga sem barist hafa gegn stjórn Assad. Lofaði hann þeim stuðningi Frakklands, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá skrifstofu forsetans.

Segist hann þar viðurkenna hlutverk SDF - Sýrlensku lýðræðissveitanna - í baráttunni við Ríki Íslams.

Meginstoð sveitanna felst í YPG, varnarsveitum Kúrda, sem Haukur Hilmarsson barðist með. Sveitirnar hafa hins vegar verið hraktar á brott af Tyrkjum úr virki sínu í Afrín.

Segist Macron vonast til að hægt sé að koma á viðræðum á milli lýðræðissveitanna annars vegar og Tyrklands hins vegar, með aðstoð Frakklands og alþjóðasamfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert