Malala: „Ég hef aldrei verið svona glöð“

Malala Yousafzai, friðarverðlaunahafi Nóbels, segist hafa þráð að komast heim til Pakistan. Hún er nú í heimsókn í heimalandi sínu í fyrsta skipti frá því að hún varð þar fyr­ir lífs­hættu­legri árás Talíbana árið 2012.

„Ég er stolt af trú minni og ég er stolt af landi mínu,“ sagði Malala í viðtali við Reuters, en af öryggisástæðum hvílir mik­il leynd yfir ferð henn­ar til Pak­ist­an.

„Ég hef aldrei hlakkað jafnmikið til neins og ég hef aldrei verið svona glöð áður.“ Malala hefur, frá því að talibanar skutu hana í höfuðið fyrir að tala fyrir menntun kvenna, búið með fjölskyldu sinni í Bretlandi og stundar nú háskólanám við Oxford-háskóla.

„Ég sakna alls í Pakistan [...] allt frá ánum og fjöllunum og meira að segja óhreinum götunum og ruslinu í kringum húsið okkar, og svo vina minna og hvernig við spjölluðum um skólann, sem og deilunum við nágranna okkar.“

Man vel eftir óttanum

Kvaðst Malala hafa viljað koma fyrr til Pakistan, en öryggisástæður og annríkið í skólanum og við inntökuprófin í háskólann hafi hindrað hana í að koma fyrr.

Malala, sem er yngsti friðarverðlaunahafi Nóbels, segist muna vel hvernig ástandið var í heimahéraði hennar Swat. Þegar hún var 9 ára gömul árið 2007 tóku talibanar yfir stjórn í heimabæ hennar og bönnuðu í kjölfarið sjónvarp, tónlist og menntun kvenna, auk þess að brenna til grunna 200 skóla á svæðinu.

„Ég man enn hverja einustu stund, allt frá óttanum við að vakna ekki næsta morgun,“ segir hún. „Óttanum við að ef maður gengi í skóla kynni einhver að stöðva mann og kasta sýru í andlitið.“

Faðir hennar var kennari í skóla sem veitti stúlkum menntun og sem tókst að halda opnum fram að fyrstu mánuðum ársins 2009.

Héldu „Ég er ekki Malala dag“ 

Íbúar Pakistan eru klofnir í afstöðu sinni til Malölu, sem er þó efalítið með þekktari Pakistönum. Hópur einkaskóla í Pakistan lýsti því til að mynda yfir að dagurinn í dag væri „Ég er ekki Malala-dagur“ og vísuðu  þar með í bók hennar „Ég er Malala“. Sagði talsmaður skólanna að þetta væri gert af því að Malala væri andsnúin íslamstrú og hugmyndafræði Pakistan.

Sjálf er Malala ósammála þessu. „Ég veit ekki hvað ég hef sagt sem gerir mig andsnúna Pakistan eða íslam,“ sagði hún. „Íslam hefur kennt mér mikilvægi friðar og menntunar.“

Menntamál voru líka meðal umræðuefna á fundi hennar með Shahid Khaqan Abbasi, forsætisráðherra Pakistan, en stjórn hans með aðstoð pakistanska hersins hjálpuðu til við að skipuleggja ferð hennar.

„Við töluðum um menntamál og ég kann að meta hvað er búið að gera, en ég tel samt að það þurfi að gera margt til viðbótar,“ sagði hún.

Pakistanskur blaðamaður tekur mynd af sér með Malölu Yousafzai, en …
Pakistanskur blaðamaður tekur mynd af sér með Malölu Yousafzai, en hún er nú í heimsókn í Pakistan í fyrsta skipti frá því að talibanar skutu hana í höfuðið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert