Sýknuð fyrir aðild að árásinni á Pulse

Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í …
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í júní árið 2016. AFP

Ekkja hryðjuverkamannsins sem skaut 49 til bana á hinsegin skemmtistaðnum Pulse í Orlando í Bandaríkjunum sumarið 2016 var í morgun sýknuð af ákæru um að hafa verið vitorðsmaður hans og hvatt hann til dáða. 

Farið var fram á lífstíðarfangelsi yfir hinni 31 árs Noor Salman fyrir að hafa aðstoðað hann við árásina og logið að rannsakendum. Omar Mateen skaut 49 til bana og særði 68 í árásinni sem hann gerði 12. júní 2016 en hann var að lokum skotinn til bana af lögreglu. Omar lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams í samtali við Neyðarlínuna 911 meðan á árásinni stóð.

Omar Mateen var skotinn til bana af lögreglu. Hann myrti …
Omar Mateen var skotinn til bana af lögreglu. Hann myrti 49 manns og særði 68 til viðbótar. AFP

Við réttarhöldin bentu verjendur Noor á að Omar hefði verið stjórnsamur og Noor hefði verið undirokuð í sambandinu. Eins hefði hún lága greindarvísitölu og væri barnaleg. 

„Af hverju hefði Omar Mateen treyst Noor, konu sem hann bar enga virðingu fyrir?“ sagði Linda Moreno, verjandi Noor, við réttarhöldin. „Hún var ekki félagi hans, ekki maki hans og ekki trúnaðarmaður hans.“

Omar Mateen hugðist upphaflega gera árás á Disney World í Orlando, þar sem hann ætlaði að smygla byssunni inn í garðinn í barnavagni. Þetta kom fram við réttarhöldin, en hann hætti við vegna mikils eftirlits lögreglu við garðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka