Sjerpinn Kami Rita ætlar á morgun að reyna að slá met yfir flestar ferðir á topp Everest-fjalls, en takist honum ferðin í þetta skipti verður það í 22.skiptið sem hann verður á toppi þessa hæsta fjalls heims.
Rita er 48 ára gamall og á að baki 21 heppnaðar ferðir á topp fjallsins. BBC greinir frá því að hann ætli með þessari ferð að fylla land sitt og sjerpa-samfélagið stolti.
Rita er einn fjölmargra sjerpa sem vinnur hjá ferðaskrifstofum sem sérhæfa sig í ferðum á fjallið háa. Hefur hann því aðstoðað fjölmarga við að komast á toppinn, en sjerpar sem hafa ferðir á fjallið að lifibrauði sínu aðstoða meðal annars með að bera farangur, setja upp tryggingar og stiga og við að leiðsaga fólk upp á toppinn.
Fyrsta ferð Rita á toppinn var árið 1994 og fór hann sína 21. ferð í maí í fyrra. Í ferðinni á morgun mun hann vera í forsvari fyrir 29 manna hóp frá öllum heimshornum. Hefst ganga þeirra í grunnbúðir á morgun en áætlað er að raunverulegt klifur á fjallið hefjist tveimur vikum síðar.
Í samtali við staðarblað í Nepal sagði Rita að ef allt gengi að óskum myndi hópurinn reyna við toppinn sjálfan 29. maí.
Jafnvel þótt hann muni slá met yfir flestar ferðir á Everest segist Rita engan veginn vera hættur að fara á fjallið og að takmark sitt væri að komast á toppinn 25 sinnum.