„Við urðum fyrir áfalli er hún sagði okkur að hún væri að fara þangað. En það kom okkur ekki á óvart,“ segir Dirk Campbell, faðir Önnu Campell, sem lést í Afrin-héraði í Sýrlandi í mars þar sem hún barðist með kúrdískum varðsveitum kvenna gegn innrás Tyrkja á svæðið. Óttast er að Haukur Hilmarsson, sem einnig barðist við hlið Kúrda í Afrin, hafi látist í árás Tyrkja á svæðinu í lok febrúar. Það hefur enn ekki fengist staðfest.
Faðir Önnu og fleiri ástvinir hennar eru í ítarlegu viðtali í dagblaðinu Guardian í dag. Þar rifjar faðir hennar upp að hann grínaðist við hana rétt áður en hún fór til Sýrlands og hann sér enn eftir því.
Anna hafði komið til föður síns sem búsettur er í Austur-Sussex á Englandi til að segja honum frá fyrirætlunum sínum. Hann segist hafa vitað að hún væri að leggja sjálfa sig í lífshættu með því að fara til Sýrlands. „En það eina sem mér datt í hug að segja var: Anna, það var gaman að kynnast þér,“ rifjar hann upp í viðtalinu. „Ég held ég verið að reyna að vera fyndinn en hún varð sár. Ég held að hún hafi viljað að ég annað hvort samgleddist henni eða reyndi að fá hana ofan af þessu. En þess í stað þá bara tók ég þessu. Tíu mánuðum síðar var hún dáin.“
Anna Campbell og sveit hennar voru að reyna að koma almennum borgurum í skjól er þær urðu fyrir árás Tyrkja í Afrin-borg.
Systir Önnu segir að nú sé hún kölluð hetja og píslarvottur en í sínum augum hafi hún verið margt annað. Hún hafi verið ástríkur bókaormur, mikill dýravinur og haft einstaka frásagnargleði.
Hins vegar var hún hermaður er hún lést.
Hún hafði smyglað sér inn í Sýrland til að berjast í kvennadeild Varðsveita Kúrda í Afrín-héraði. „Það var eins og hún væri að leita að hinni fullkomnu leið til að sýna öll sín dýrmætustu gildi: Mannúð, umhverfisvernd, femínisma og jafnrétti almennt, segir faðir hennar. Hann segir hana barist fyrir öllum þessum þáttum allt sitt líf og það hafi hún haldið áfram að gera í Sýrlandi.
Kúrdar hafa farið með yfirráð yfir sífellt stærra svæði í norðurhluta Sýrlands síðustu ár. Þeir náðu m.a. landssvæðum af vígamönnum Ríkis íslams með aðstoð Bandaríkjahers. Þó að langtímamarkmið flestra þeirra sé sjálfstætt ríki hefur það þó ekki verið forgangsmál á svæðinu. Hins vegar hafa tyrknesk yfirvöld litið á það sem ógn að Kúrdar hafi náð ákveðinni sjálfsstjórn í nágrannríkinu Sýrlandi á sama tíma og Kúrdar í Tyrklandi berjast fyrir sjálfstæði sínu.
Dirk Campbell segir dóttur sína Önnu lengi hafa verið aðgerðarsinna. Í háskóla fór hún að einbeita sér af ákveðnum baráttumálum og hætti að loknu fyrsta árinu til að fylgja hugsjónum sínum, eins og faðir hennar orðar það.
Það sama ár missti hún móður sína úr krabbameini. Anna var þá 21 árs. Hún hóf að nema pípulagnir og á sama tíma tók hún þátt í baráttu með dýraverndunar- og mannúðarsamtökum. Faðir hennar segir hana hafa verið einn fyrsta Vesturlandabúann til að hætta sér inn í Frumskóginn svokallaða, flóttamannabúðirnar alræmdu í Calais í Frakklandi, en þangað fór hún til að standa vörð um réttindi flóttafólksins. „Hún skrifaði föngum bréf, hún gaf blóð, hún mótmælti dýraníð,“ segir faðir hennar um baráttumálin.
Árið 2015 tók hún þátt í mótmælum gegn uppgangi fasistahópa og varð þá fyrir barsmíðum svo hún missti meðvitund. Systir hennar segir að hún hafi séð aðra konu dregna inn í hóp öfgamanna og að hún hafi ákveðið að koma henni til bjargar með fyrrgreindum afleiðingum.
Sumarið 2017 hóf hún að beina sjónum sínum að ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hún sagði fjölskyldunni frá fyrirætlunum sínum að ganga til liðs við varnarsveitir Kúrda en vinir hennar fengu ekkert að vita. Faðir hennar segir að hún hafi haldið sambandi eftir að til Sýrlands var komið. Hún hafi róað hann og sagt að allt væri í góðu lagi, hún væri að rækta grænmeti og standa vörð, sagðist ekki taka þátt í neinum orrustum.
Í lok janúar hófst svo stórsókn Tyrkja á Afrin-hérað. Stöðugar loftárásir voru gerðar m.a. á sjúkrahús. Hundruð almennra borgara féllu. Samkvæmt heimildum blaðamanns Guardian bað Anna um að fá að fara og berjast í Afrin-borg. Hún gerði það að lokum en lést tveimur vikum síðar.
Faðir hennar segir að hann hefði átt að gera eitthvað. Að hann hefði átt að gera sér betur grein fyrir ástandinu. Að hann hefði átt að fara til hennar. „Kannski hefði ég getað stöðvað hana,“ segir hann en bætir svo við: „En á sama tíma þá var ég mjög stoltur af henni. Ég held að ég hafi ekki haft neinn rétt til að stöðva hana. Hún var 26 ára gömul kona. Ég varð að treysta henni.